150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu lýsa ánægju minni yfir þessari umræðu vegna þess að hún hefur verið efnisrík og um margt hefur hún verið málefnaleg. Ég ber þetta saman við tvær síðustu fjárlagaumræður sem hafa verið afskaplega yfirborðskenndar. Það var varla hægt að henda reiður á nokkrum hlut og þess vegna er sérstakt ánægjuefni að hafa 40 mínútur til umráða í fyrsta umgangi til að fara vel yfir þetta fjárlagafrumvarp og þær áherslur sem þar koma fram.

Að því sögðu hefði ég gjarnan viljað taka fram að aðkoma Alþingis að fjárlagagerð er náttúrlega í mýflugumynd. Það skiptir í sjálfu sér engu máli hvort maður er í stjórn eða stjórnarandstöðu, hvort maður er í ríkisstjórn, einhver önnur öfl ráða, það er búið að afhenda fjárlagagerðina og peningavaldið embættismannakerfinu sem gerir þessi fjárlög klár. Það er búið að afhenda þetta vald þangað. Í sjálfu sér má segja, og ég viðurkenni vel að hafa tekið þátt í því, að eitt stærsta valdaframsal frá stjórnmálum til embættiskerfisins fólst og felst í lögum um opinber fjármál. Þó að við brennum í andanum fyrir einhverjum málefnum, einhverjum áríðandi og knýjandi verkefnum, er ekki nokkur möguleiki á því að þau komist í gegn, ekki nokkur einasti. Engu að síður basla menn náttúrlega í því að setja saman tillögur til að reyna að bæta þetta flata frumvarp.

Þetta frumvarp er afskaplega flatt, herra forseti. Það er mjög í anda þess hvernig ríkisstjórnin er samsett, að valdapólarnir tveir í stjórninni eru hægt og hljótt að breytast hvor í annan, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn er að breytast í skattaglaðan flokk sem Vinstri grænir voru og hafa alltaf verið. Hann byggir undir hið marxíska heilbrigðiskerfi sem fær kalt vatn til að renna milli skinns og hörunds á manni. Þessu kyngir Sjálfstæðisflokkurinn. Vinstri græn aftur á móti þakka fyrir sig með því að taka þátt í hermangi af áður óþekktri stærð núna í tíu ár og byggja upp hernaðarmátt. Ekki svo að skilja að ég sé að lasta það, varnarverkefni eru vel gerð. Síðan er þriðji flokkurinn sem töltir bara með og hefur sig hægan eins og hann hefur gert síðan til þessarar ríkisstjórnar var stofnað og er hann nú úr sögunni. (Gripið fram í.) Ég heyri kvak en heyri ekki hvað það er.

Það sem ég ætlaði nú að segja er að forgangsröðunin í þessu fjárlagafrumvarpi, sem ég segi aftur að er mjög flatt, ber náttúrlega með sér að embættismenn hafa haft tögl og hagldir þegar það var samið. Það sýnir manni þessa afbökuðu forgangsröðun. Af því að ég var að segja hvað Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn skattaglaður tek ég líka fram að Vinstri græn grípa til þess ráðs að seinka því enn einu sinni að þeir sem minnst hafa á milli handanna fái notið einhvers réttlætis. Ég fer yfir þetta af handahófi, herra forseti, og vona að mér fyrirgefist það þar sem ég hef enn nógan tíma. Eitt af því sem er gripið til núna er að draga 3 milljarða frá nýbyggingu Landspítalans. Þetta er kallað hliðrun (Gripið fram í.) en er náttúrlega seinkun. (Gripið fram í.) Þetta er nýyrði. Ég heyri enn kvak en heyri ekki hvað það er. Menn eru að klæða niðurskurðinn í karamellubúðing, þetta er karamellubréf svo þetta líti betur út. Það er náttúrlega einfalt að láta ekki blekkjast af því. Á sama tíma og þetta gerist, t.d. að Landspítalinn fær ekki nógu mikið af peningum fyrir rekstur sinn, er verkefnum hlaðið inn á spítalann á hverjum einasta degi, verkefnum sem voru í ágætishöndum áður. Nýjasta dæmið er verkefni sem voru rifin frá Krabbameinsfélaginu og sett inn á yfirhlaðinn Landspítala til að lengja enn biðlista. Úr því að ég nefni Landspítalann getum við líka minnst á það að það er ekki sama hvernig við förum með peninga. Ríkisstjórninni og Vinstri grænum er alveg sama hvernig við förum með peninga. Þess vegna erum við að senda fólk í liðskiptaaðgerðir til útlanda. Undir þetta tekur Sjálfstæðisflokkurinn, tekur því fegins hendi að verið sé að borga í beinhörðum gjaldeyri — það er verið að borga tvöfalt meira fyrir liðskiptaaðgerðir en við þurfum að gera af því að út af pólitískum rétttrúnaði er ekki hægt að gera samning við fyrirtæki uppi í Ármúla sem gæti gert þetta og gerir, nota bene, 150 aðgerðir á ári fyrir þá sem eru búnir að gefast upp á biðinni. Vinstri grænum og heilbrigðisráðherra þeirra tókst á örskömmum tíma — engum ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum hefur tekist svo ég viti að búa til tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi á jafn skömmum tíma og heilbrigðisráðherra Vinstri grænna hefur tekist. Svo ég minnist enn á Sjálfstæðisflokkinn blessaðan er afrek út af fyrir sig að hann er kominn í sama gír og Vinstri græn, þegar hann sér hóp af fólki sér hann skattstofn. Við hin sjáum bara hóp af fólki en Sjálfstæðisflokkurinn er núna kominn í lið með Vinstri grænum, þegar hann sér hóp af fólki sér hann skattstofn. Þá er farið að pæla: Hvernig getum við plokkað eitthvað aðeins meira af þessum skattstofni?

Nú er búið að finna upp urðunarskatt, hugsið ykkur, urðunarskatt, og þetta á að vera hvetjandi, herra forseti. Ég ræddi við mann nokkurn áðan sem starfar í stórfyrirtæki sem er búið að ná marktækum árangri í því að minnka úrgang og sorp sem fer frá því fyrirtæki. Með því að byrja að flokka náði fyrirtækið 60% árangri á fyrsta ári. Af hverju? Af því að þeir höfðu áhuga. 140 tonn af úrgangi falla til hjá þessu fyrirtæki. Þeir eru núna komnir í að 24% fara óflokkuð frá fyrirtækinu og vegna þess hvernig þeir flokka geta þeir selt hluta af úrganginum og hluta af sorpinu. Þeir eru þannig líka að spara. Ég spurði þennan ágæta mann hvernig honum litist á að fá urðunarskattinn. Er það ekki hvetjandi? spurði ég. Nehei, sagði hann, það er ekki hvetjandi, það er letjandi. Þetta verður rándýrt fyrir heimili landsins. Af hverju er ekki meira flokkað á höfuðborgarsvæðinu? Það er vegna þess að borgaryfirvöld hafa ekki staðið sig í því að gera fólki kleift að flokka. Af hverju hugsa menn ekki áður en þeir henda svona skatti inn sem þeir vita ekki hvað þeir ætla að gera við? Nei, þeir ætla bara að henda þessu í hítina. Þetta er engin fjármálastjórn. Það hefur náðst marktækur árangur, t.d. í Stykkishólmi, í flokkun sorps. Af hverju gefa menn sér ekki aðeins tíma og fara ofan í þetta? Af hverju gefa menn ekki borgaryfirvöldum — að vísu þurfa þau langan tíma til að snúa sér við en allt í lagi — tækifæri til að gera heimilunum kleift að flokka meira? Við skulum gá að því að mikill meiri hluti af sorpi frá heimilum er lífrænn og hentar þess vegna vel í moltugerð. Þetta er ekki það sem Vinstri græn vilja gera. Við þingmenn Miðflokksins með hv. þm. Karl Gauta Hjaltason í broddi fylkingar stungum upp á því um daginn að kanna möguleika á því og hagkvæmni þess að reisa hér hátæknisorpbrennslu. Þetta féll í grýttan jarðveg hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna, þeir vilja nefnilega flytja mengunina okkar út. Þeir vildu ekki sjá að við værum að brenna sorp hérna af því að það kæmi útblástur, þetta er að vísu hátæknibrennsla, en þeim var alveg sama þótt þeir flyttu sorpið inn á miðja Amager og létu þá anda þessu að sér, þótt þeir flyttu út sorpið og mengunina. Þetta eru úrræðin sem Vinstri græn bjóða upp á núna í umhverfismálum, fyrir utan það að ráðast á þann hluta heimila sem á einkabíl og skaffar u.þ.b. 6–8% af útblæstri og skatta þann hóp algjörlega í drep.

Við ætlum að vaða í orkuskipti sem svo eru kölluð. Við vitum ekkert um það hvernig gengur að farga rafmagnsbílum þegar þar að kemur. Kannski flytjum við liþíumbatterí út til Afríku eins og við erum búin að gera með símana okkar. Þá getum við flutt mengunina út. Þá verða Vinstri græn ánægð með að geta gert það. En við horfum ekki nógu langt fram á við og menn eru í sífellu að velta sér upp úr einhverjum aukaatriðum, vilja banna plastpoka sem eru 1% af sorpi sem til fellur en finnst allt í lagi að jarða 250.000 tonn. Það er ekki málið, ég tala nú ekki um að brenna það. Það er bara ekki inni í myndinni. Danir gætu gert það fyrir okkur en að sjálfsögðu sjá Danir, Svíar og Þjóðverjar möguleika í því að brenna sorp. Þetta er hitagjafi, orkugjafi, að sjálfsögðu og ef við horfum út fyrir 101 og stærstu svæðin á landinu búa ekki öll svæði við þann munað á Íslandi að hafa aðgang að heitu, ódýru vatni, því miður. Þess vegna finnst mér einhvern veginn, eins og ég sagði áðan, að ráðandi öfl í ríkisstjórninni laði fram það versta hvert í öðru.

Við Miðflokksfólkið höfum talað í breytingartillögum fyrir nauðsyn þess að auka fjölda úrræða í hjúkrunarheimilum. Það er vissulega búið að byggja svolítið af þeim en það er ekki alveg nóg. Eitt nýjasta hjúkrunarheimilið sem er búið að reisa á Íslandi sem er staðsett í minni heimabyggð er hálfnýtt vegna þess að fólk fæst ekki til að vinna þar. Forgangsröðunin hjá þeim sem reka heimilið er ekki rétt á nákvæmlega sama hátt — af því að við höfum talað mikið um það á þinginu, þar á meðal forystumenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, þó að þeir standi ekki við það, að Landspítali þurfi meira fé til að reka sig. Það er alveg hárrétt en það er ekki hægt að kaupa allt fyrir peninga. Fyrir nokkrum dögum fengum við minnisblað frá Læknafélagi Íslands um það hvers vegna er svo erfitt að fá fólk til að vinna á Landspítalanum. Peningar koma þar sáralítið við sögu, herra forseti, þannig að ég ætla að endurtaka það sem ég sagði úr þessum ræðustól um daginn: Vandi Landspítala – háskólasjúkrahúss er stjórnunarvandi. Hann felst líka í því að við erum ekki að nota handbært fé rétt. Við vitum öll að það er hægt að taka við peningum alveg endalaust, það geta allir gert, ég tala ekki um í krefjandi rekstri eins og rekstur sjúkrahúss er. Hvers vegna forgangsraða menn þá ekki? Hvers vegna útvista menn ekki í meira mæli t.d. liðskiptaaðgerðum, láta af trúarkreddunum, semja við einkaaðila, semja líka um að aukinn fjöldi fari til nágrannasjúkrahúsanna og til Akureyrar þar sem árangur er, takk, mjög bærilegur? Á þessum stöðum er allt til staðar og þá getur Landspítali – háskólasjúkrahús, þessi vandaða stofnun, einbeitt sér að þeim erfiðu tilfellum sem hann þarf og verður að sinna sem bráðasjúkrahús, sem flaggskipið í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. hjartaaðgerðunum, krabbameinsaðgerðunum o.s.frv. Hann getur látið hinar einfaldari aðgerðir frá sér fara og stytt með því biðlista. Nú er alveg ljóst, herra forseti, og mun koma fram, því miður, að nýjustu aðgerðir heilbrigðisráðherrans, að taka krabbameinsskoðun af Krabbameinsfélaginu, þ.e. brjóstaskoðun og leghálsskoðun, munu lengja biðlista. Þetta verður hvorki til þess að þjónustan verði ódýrari né betri, þvert á móti.

Við erum nýkomin út úr því ástandi að sjúkrabílarnir á Íslandi voru teipaður saman. Það sér ekki alveg fyrir endann á því af því að fyrsti nýi sjúkrabíllinn kemur ekki fyrr en eftir tíu mánuði. En í alvöru talað var ástandið þannig að við vissum um einn sjúkrabíl sem við sáum hjá Rauða krossinum um daginn sem var teipaður saman með filmu til að hann héngi saman. Þetta er sjúkrabíll á því svæði sem er einna stærst og erfiðast að fara yfir á Íslandi. Af pólitískum trúarkreddum hefur dregist í tvö ár að gera samning við Rauða krossinn. Hann var loksins gerður um daginn, loksins, en til hafði staðið að gefa Rauða krossinum það í afmælisgjöf, í tilefni þess að 90 ára væru síðan hann hóf að reka sjúkrabíla, að rífa þá af þeim án þess að búið væri að finna einhvern annan til að reka þá.

Herra forseti. Þetta er svo hróplegt að því verður varla lýst. Þetta láta Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur teyma sig út í. Það er ótrúlegt.

Ég ætlaði ekki að vera svona jákvæður allan tímann í þessari ræðu, ég ætla að verða enn jákvæðari og fara yfir það helsta sem við Miðflokksfólk leggjum til. Við leggjum til breytingartillögur sem eru vel útfærðar og fullfjármagnaðar. Menn geta borið þær saman við aðrar breytingartillögur sem hér hafa komið fram og kosta allar eitthvað 000, þ.e. þær eru allar í einhverjum slumptölum, milljarður hér, hálfur hér, tveir þar og eitthvað svoleiðis. Þetta er ekki svona hjá okkur. Hér eru nákvæmar tölur sem eru til þess fallnar að gera gagn. Svo ég byrji lesturinn leggjum við til að almenn löggæsla fái 300 millj. kr. í auknar fjárheimildir. Ef þetta verður samþykkt verður það væntanlega til þess að laga nokkuð það ástand sem er sérstaklega vont á höfuðborgarsvæðinu. Hér vantar enn 80 lögreglumenn bara til þess að komast í sama ástand og var um aldamótin síðustu. Þetta þýðir að viðbragðstími lögreglu á höfuðborgarsvæðinu er óásættanlegur. Þær viðbætur, sem ég lasta ekki, sem hafa komið fram undanfarin tvö ár hafa beinst að því að fjölga lögreglumönnum sem fylgjast með netglæpum og tölvuglæpum. Það er góðra gjalda vert en þeir fara ekki í útköll, herra forseti. Þeir bregðast ekki við ef líkamsárás er gerð einhvers staðar á svæðinu. Eins og ég er búinn að margsegja úr þessum ræðustól er mannfæðin í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu orðin slík að menn fara miklu færri í útköll nú en var. Það eykur hættuna á meiðslum lögreglumanna sem vissulega hefur komið fram, menn hafa slasast miklu meira en áður, vegna þess að við erum að senda færri lögreglumenn og -konur en áður í erfið útköll. Menn virðast ekki heldur gera sér grein fyrir því að það kostar 5,5 stöðugildi að manna eina sólarhringsstöðu. Menn virðast ekki gera sér grein fyrir því. Þess vegna er lögreglan dýr, vegna þess að það er dýrt að halda úti sólarhringsþjónustu. Menn verða að gera sér grein fyrir þessu. Gáið líka að því að þær 80 stöður sem ég minntist á áðan skila væntanlega u.þ.b. 16 manns á vakt. Mig minnir að það séu tveir eða þrír menn í miðri viku á næturvakt á þeirri stöð innan höfuðborgarsvæðisins sem á að sjá um þjónustu fyrir Kópavog og Breiðholt. Það sér hver heilvita maður að þetta gengur ekki. Ég tel okkur hafa verið mjög heppin að ekki skuli hafa myndast hér miklu verra ástand en þó hefur gert.

Við leggjum til að styrkur til fjölmiðlanefndar verði felldur niður, 400 milljónir, þ.e. sú hugmynd ríkisstjórnarinnar að gera alla fjölmiðla að ríkisfjölmiðlum. Það er afskaplega vond hugmynd. Við erum búin að reka ríkisfjölmiðil á Íslandi síðan 1930. Árið 1930 var hugmyndin alveg frábær en núna er 2019. Við erum með efnisveitur, streymisveitur, blogg og upplýsingakerfi úti um allt sem við þurfum ekki að ríkisreka, ekkert frekar en við kærum okkur um.

Ég hef líka bent á það úr þessum ræðustól, og ætla að gera það einu sinni enn, að menn hafa talað mikið um fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Ég vil gjarnan tala um aðskilnað ríkis og RÚV. Ég vil gjarnan viðra þá hugmynd sem er kannski bara prívathugmynd núna en verður örugglega seinna hugmynd sem fær meiri fjaðrir og meira flug, þá hugmynd að leyfa fólki að velja eins og gert er í dag. Menn muna að við getum tekið sóknargjöldin og sagt að við viljum leggja þau til Ásatrúarfélagsins, Siðmenntar eða Háskóla Íslands. Það er mjög gott. Hvers vegna leyfum við fólki ekki að gera þetta með árgjaldið að RÚV, leggja það í Stundina, Útvarp Sögu eða hvað sem er? Hvers vegna ekki? Því er haldið fram að Ríkisútvarpið njóti gríðarlegs trausts sem það eflaust gerir en það kæmi í ljós ef við myndum opna þessar dyr hversu margir myndu enn kjósa að greiða sitt árgjald til Ríkisútvarpsins eins og þeir hafa alltaf gert. Eins og málið er núna er, eins og menn vita, aðeins ein leið út úr RÚV. Við getum sagt okkur úr þjóðkirkjunni en það er bara ein leið út úr RÚV og hún er niður á sex fet. Öðruvísi fer maður ekki þaðan út.

Miðflokkurinn leggur til að 100 millj. kr. verði bætt við geðheilbrigðismál Landspítala – háskólasjúkrahús og 5.000-kalli. Nei, þetta eru 100 millj. kr., hv. þingmaður, og við leggjum þetta til í framhaldi af því að um daginn var hér sérstök umræða um geðheilbrigðismál ungs fólks, einkum þess sem á við fíknivanda að stríða, og sem betur fer voru allir mjög jákvæðir. Nú gefst þingmönnum kostur á að láta reyna á þann einlæga vilja sem hér kom fram um daginn til að bæta úr í þessum málum. Nú gefst mönnum tækifæri til þess að beina honum í jákvæða átt, þ.e. með því að styrkja geðheilbrigðissvið Landspítalans. Við leggjum til að hagræðingarkrafa verði sett á ráðuneyti á Íslandi upp á sléttar 1.100 milljónir. Það er mjög í þeim anda sem við höfum talað um, að við viljum draga úr bákninu. Þetta er mjög rökrétt skref, að draga úr bákninu með hagræðingarkröfu. Stjórnkerfið á Íslandi hefur blásið út undanfarin mjög mörg ár, m.a. á vakt Sjálfstæðisflokksins. Ég held að það hafi sjaldan í annan tíma blásið eins mikið út þannig að við viljum að þetta verði sett fram.

Að auki viljum við leggja fram hagræðingarkröfu á sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Það var samþykkt að fara í þetta verkefni og það á að búa til 300 manna ríkisstofnun sem er seðlabanki og síðan verður fjármálaeftirlitið deild í Seðlabankanum. Ég skal viðurkenna að ég er skeptískur á þá framkvæmd en fyrst hún er ákveðin þykir okkur sjálfsagt að því fylgi hagræðing í peningum upp á 350 milljónir.

Við leggjum til að hjúkrunarheimili fái fé vegna rekstrarvanda sem ég minntist á áðan. Það er ekki hægt að manna þau. Vegna þess að það gengur gríðarlega illa að reka þessi hjúkrunarheimili leggjum við til að 800 milljónum verði varið aukalega í þennan vanda. Við leggjum einnig til að 30 milljónir verði settar í heilsueflingu aldraðra. Heilsuefling aldraðra er líklega ein besta forvörn sem við eigum, fyrir utan það sem við leggjum náttúrlega til líka, að atvinnutekjur aldraðra rýri ekki lífeyristekjur. Það er kannski líka besta heilsuefling sem hægt er að bjóða upp á vegna þess að hún kemur í veg fyrir depurð og einangrun og gefur fólki kost á að vera virkt lengur í þjóðfélaginu. Hún gefur fólki kost á að vera á meðal fólks, nýta hæfileika sína, reynslu og þekkingu. Það er satt að segja til skammar hvernig við höfum umgengist þennan hóp undanfarin ár.

Við Miðflokksfólk höfum lagt til ýmislegt annað í þessu, við höfum lagt til að t.d. ríkisstarfsmenn geti unnið til 73 ára aldurs ef þeir kjósa. Hvað er gert í dag? Ríkisstarfsmönnum er nánast hent út í mánuðinum eftir að þeir verða sjötugir og í sumum tilfellum er þetta fólk, harðklárt fólk með mikla reynslu, gert að verktökum og út af ráðstöfun ríkisstjórnarinnar má það síðan ekki vinna sér inn nema 100.000-kall í viðbót, þá verður það fyrir skerðingum.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég skil þetta mál ekki. Ég vil ekki skilja það vegna þess að það er svo augljós hagur af því að gera þetta. Það að þurfa að standa í þessum ræðustól aftur og aftur og fara með þessi einföldu sannindi er með hreinum ólíkindum. Það er með hreinum ólíkindum að menn skuli ekki aðgæta það að með því að leyfa ellilífeyrisþegum að vinna sér inn peninga án þess að rífa þá af þeim fyrir ofan 100.000-kall eru menn að fá skatttekjur. Ég horfi nú á formann fjárlaganefndar sem ég veit að er töluglöggur maður og skynsamur. Ég skil ekki af hverju þetta kemst ekki hér í gegn. Ég næ því ekki fyrir mitt litla líf. Nú gefst mönnum kostur á að framkvæma þetta.

Við leggjum til að fallið verði frá 10% hækkun kolefnisgjalds af því sem ég sagði áðan. Af hverju ætlum við að eltast við fólk og hundelta það sem stendur undir 6–8% af útblæstri? Á sama tíma geta menn ekki komið sér saman um hver á að borga landtengingu í helstu höfnum landsins fyrir skemmtiferðaskip. Ég tékkaði á því um daginn að stærsta skipið sem kom t.d. til Reykjavíkur liðið sumar, skip sem rúmar sirka 6.500 manns þegar það er fullt af fólki, þ.e. af farþegum og áhöfn, er eins og þó nokkuð stórt sveitarfélag á Íslandi. Og hvernig fær það rafmagn? Jú, það er með þrjár 21.000 hestafla dísilvélar um borð. Hvað skyldu vera margir fólksbílar í því, herra forseti? Ég er ekki svona fljótur að reikna en ég held að það væri fullkomin ástæða til að kanna það. Menn leggja kolefnisgjald á þá sem keyra um á bílum sem eyða 3–7 lítrum á hundraðið.

Við leggjum til að Landsbankalóðin og Hafnartorgið verði seld. Fyrir það fást væntanlega um 2 milljarðar kr. Menn segja: Þetta er ekki rétti vettvangurinn. Allt í lagi, þá bara leggjum við fram þingsályktunartillögu þar sem við beinum því til handhafa hlutabréfsins, handhafa 98,3–98,7% hlutar í Landsbankanum, að þetta verði gert. Hvers vegna í veröldinni á ríkisstofnun, ríkisfyrirtæki, þó að þetta heiti háeff núna, að byggja höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins sem er til og of stórar höfuðstöðvar? Það hefur komið fram að það á að leigja út hluta af þessu. Þetta á að kosta 9 milljarða. Seljum þetta eins og þetta er. Ég er búinn að segja þetta áður en ég skal segja það aftur. Ég var á mjög fínum borgarafundi í Breiðholti um daginn og Breiðhyltingar sögðu: Við viljum að að ríkisstofnanir séu fluttar í Breiðholtið. Ég sagði: Vitið þið hvað, ég er til í að flytja Landsbankann upp í Breiðholt. Og ég er enn til ég það. Ég er til í að leggja fram lagafrumvarp um það ef út í það er farið að höfuðstöðvar Landsbankans skuli vera í Breiðholti. Þær eiga a.m.k. ekki að vera á dýrustu lóð landsins hér úti við höfnina. Það er alveg klárt.

Við teljum að það eigi að leggja 250 millj. kr. til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Af því að Landspítalinn er svo fyrirferðarmikill, hann þarf svo mikið, tekur svo mikið til sín, finnst okkur stundum að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni gleymist. Þess vegna viljum við halda því til haga að þær eru í sömu vandræðunum og Landspítalinn að mörgu leyti. Þess vegna leggjum við til að þær fái þetta aukaframlag.

Við leggjum til að skógrækt verði efld, þar með kolefnisjöfnun, fyrir 30 millj. kr. Það er náttúrlega víst og menn vita það að ef við viljum ná árangri í kolefnisjöfnun og ef við viljum ná árangri í því að kolefnisjafna landið er skógrækt ein besta leiðin til þess arna.

Við leggjum til að framkvæmdum við stjórnarráðsbygginguna verði frestað. Það sparar u.þ.b. 550 millj. kr. Þá gefst mönnum um leið tækifæri til þess að horfa aftur á það hvernig sú bygging er teiknuð og passar engan veginn inn í þá götumynd sem er í Bankastræti. Það er þó önnur saga.

Við leggjum til að tollgæsla, sérstaklega fíkniefnaeftirlit og öryggi á landamærum, verði efld með því að þar verði lagðar til 250 milljónir í aukin framlög. Eins og allir vita stríðum við við gríðarlegan vanda sem tengist fíkniefnum. Við erum líka núna komin í skotlínu alþjóðlegra glæpasamtaka sem flytja hingað meira magn af fíkniefnum, sérstaklega hörðum efnum, en við höfum séð mjög lengi. Við sjáum það líka á því hvernig þessi efni koma til landsins að nú eru menn að reyna að koma undir sig fótunum á þeim markaði sem fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi er. Við viljum fyrir alla muni verjast þessu eins og við getum en þetta snýst ekki bara um fíkniefni, þetta snýst líka um almennt öryggi á landamærum sem þarf að stórefla. Þess vegna leggjum við þetta til.

Við leggjum til að tryggingagjald verði lækkað um 0,25%. Við erum eins og aðrir landsmenn búin að bíða með öndina í hálsinum eftir því að ríkisstjórnin lækki tryggingagjald svo um muni en hún hefur ekki hunskast til þess. Hún hefur dregið lappirnar í því máli eins og svo mörgum öðrum. Þetta mun kosta 2 milljarða kr. sem eru sirka andvirði Landsbankalóðarinnar. Auðvitað mun það efla sérstaklega lítil fyrirtæki, smáfyrirtæki og meðalstór, að tryggingagjaldið lækki með þessum hætti. Það mun aftur á móti örva hér hagvöxt. Það lítur út fyrir samdrátt og ríkissjóður er kominn í halla vegna þess að menn gerðu áætlanir sem þeim var bent á fyrir ári að stæðust ekki. Það er þó önnur saga. Við leggjum sem sagt til að tryggingagjaldið verði lækkað að þessu leyti og trúum því að það verði til þess að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og efla hér hagvöxt.

Við leggjum til að fallið verði frá virðisaukaskattsafslætti á útleigu umhverfisvænna bíla, 60 millj. kr. Eins og þessi tillaga er sett upp af hálfu ríkisstjórnarinnar býður hún upp á svindl. Hún býður upp á það vegna þess að það er ekki skilgreint í tillögunni hvað er umhverfisvænn bíll. Ef ég væri að leigja út bíla myndi ég bara segja: Heyrðu, þeir eru allir umhverfisvænir, ég vil fá afslátt fyrir þá alla. Þetta býður upp á það. Menn hanga á þessu fyrir 60 milljónir sem eru náttúrlega bara dropi í hafið. Við viljum samt spara þessar 60 milljónir því að dropinn verður einhvern tímann að fljóti.

Við leggjum til tvennt sem varðar öryrkja og í öllu því samkrulli sem þessi ríkisstjórn — ég minntist á það áðan að Sjálfstæðisflokkurinn væri til í að hækka hér skatta sem sjaldan fyrr og þá eru Vinstri græn til í að tefja það að öryrkjar fái leiðréttingu sinna mála. Þau eru til í að tefja það og eru búin að tefja núna í tvö ár að þeir nái fullu réttlæti.

Við leggjum til að sett verði á stuðningsstörf með aðkomu Vinnumálastofnunar sem kostar ríkissjóð 200 milljónir. Það mun gera öryrkjum kleift að efla sjálfa sig og taka virkan þátt, vinna sér inn aukagetu og öðlast þar með tækifæri og fyllra líf.

Við leggjum enn fremur til að frítekjumark öryrkja verði hækkað og að til þess verði varið 325 millj. kr., bæði það að öryrkjar fái aðgang að stuðningsstörfum og að þeim sem geta fallið í þann flokk verði ekki refsað með því að strax verði byrjað að skerða tekjur þeirra.

Þetta eru í örfáum orðum þær tillögur sem Miðflokkurinn leggur til við 2. umr. fjárlaga. Það er verst að maðurinn sem hafði mestan áhuga á að vita kostnaðinn er farinn úr salnum en þetta mun kosta 4.660 millj. kr. að okkar áliti. Tekjurnar eru þarna á móti þannig að að þessum 17 liðum samþykktum væri hægt að ná þeim árangri sem ég er búinn að lýsa hér í örfáum orðum.

Að sjálfsögðu vonumst við til þess að skynsemin muni ráða við 2. umr. fjárlaga og að menn muni samþykkja þessar tillögur. Eins og þær eru settar upp og eins og þeirra forsendur eru mun það ekki breyta afkomu ríkissjóðs til hins verra á neinn hátt, þvert á móti, eins og við höfum bent á. Bara það að gera eldra fólki kleift að vinna eins og það getur og kýs kemur öllum til góða, bæði því sjálfu, ríkissjóði, öllum.

Herra forseti. Ég sé að tími minn er að hverfa frá mér. Hann hefur horfið á örskotsstundu þannig að ég verð að láta máli mínu lokið að sinni. Ég kem kannski aftur og bæti við því sem upp á vantaði í þessari ræðu.