150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Hann þarf ekki að sannfæra þann sem hér stendur um nauðsyn þess að lækka stýrivexti. Sá sem hér stendur er búinn að tala fyrir því í sex ár, lengst af fyrir daufum eyrum. Það eru hins vegar hvorki Alþingi, fjárlaganefnd né neinir slíkir sem taka ákvörðun um það, það gerir Seðlabanki Íslands. Það er þó mjög gott ef fjárlaganefnd, fjármálaráðherra og ráðuneytið sem slíkt, hæstv. ráðherra, hafi haft einhver áhrif til góðs á það að Seðlabankinn hafi loks tekið réttar ákvarðanir.

Það er afskaplega gott að fá klapp á bakið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þeim ágæta sjóði, en ég ætla samt að segja að ég hrökk svolítið við um daginn þegar fulltrúar hans sögðu: Ja, nú er nóg að gert í vaxtalækkunum.

Stýrivextir eru þrátt fyrir allt 3%. Mig langar að vitna í ekki svo gamla þróun sem varð í Noregi þar sem Norðmenn glímdu við töluverða verðbólgu. Þeir lækkuðu stýrivexti sína mjög hratt og mjög bratt og í stuttu máli sagt hafa þeir ekki verið í verðbólguvandræðum síðan. Það kom í ljós að mjög brött og mjög drastísk — fyrirgefðu, herra forseti — lækkun stýrivaxta hafði áberandi áhrif á lækkun verðbólgu. Ég ætla hins vegar ekki að taka til baka þau orð mín að áhrif Alþingis á fjárlagagerðina séu ekki eins mikil og ég hefði talið æskilegt að þau væru. Stefna ríkisstjórnarinnar, segir hv. þingmaður — ég verð að koma aftur eftir smástund og klára þá setningu. (Gripið fram í.)