150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þarna kom hv. þingmaður inn á athyglisverðan punkt vegna þess að ef tillögur okkar Miðflokksmanna um að byggja nýjan spítala á betri stað hefðu verið teknar til greina hefðum við einfaldlega ekki þurft að tefja verkið með gatnaframkvæmdum. Þessi steypuhlunkur verður þarna næstu 200 árin og við erum ekki búin að bíta úr nálinni með það hvernig samgöngum verður háttað í kringum þennan spítala.

Menn minntust á borgarlínu og ég spurði starfsmann Landspítala – háskólasjúkrahúss ohf. hversu mörgum sjúklingum menn gerðu ráð fyrir með borgarlínunni. Ég fékk ekkert svar við því enda er þetta tóm fásinna og það er einmitt ágætt að það skuli koma fram núna strax. Það þarf að hliðra, eða seinka eins og við köllum það á íslensku, framkvæmdum vegna þess hve vitlaust staðarvalið er. Þetta vissum við allan tímann og höfum margsagt það en því miður hlustuðu menn ekki. Auðvitað munu menn sjá það, því miður, þegar lengra kemur í uppbyggingu þessa sjúkrahúss á þessum rammvitlausa stað — við erum að jarða 100 milljarða í Vatnsmýrinni — hversu miklu skynsamlegri tillögur okkar Miðflokksfólksins voru um að byggja spítalann á betri stað, t.d. uppi á Keldum sem nú á að fara að loka með því að selja það land.

Tíu mánaða fjármálaráðherrann um árið eyðilagði Vífilsstaðahugmyndina. Ef hlustað hefði verið á Miðflokksfólk hér áður hefðu menn ekki verið í því núna að bútasauma einhverjar götur í kringum þessa stóru framkvæmd.