150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér í 2. umr. fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og vil ég víkja að nokkrum málefnasviðum í máli mínu og taka fyrir einstaka liði. Ég fer vítt og breitt um, kannski ekki mjög skipulega, en ræði málið í stóra samhenginu og síðan einstaka þætti. Margt hefur komið fram í máli hv. þingmanna í gær og í dag þótt ég verði að játa að ég hef ekki hlustað á alla umræðuna. Það eru nokkur atriði sem ég vil sérstaklega koma að. Í fyrsta lagi vil ég benda á að Miðflokkurinn er með 17 breytingartillögur við frumvarpið og þær eru fullfjármagnaðar, þ.e. við leggjum til sparnað og útgjöld á móti.

Við leggjum til auknar fjárveitingar til almennrar löggæslu og tollgæslu og ég mun víkja nokkrum orðum að því á eftir. Við leggjum einnig til auknar fjárveitingar til hjúkrunarheimila vegna rekstrarvanda. Ég ætla aðeins að víkja að því. Við leggjum til aukið fjármagn til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, við leggjum til lítillega aukið framlag til skógræktar og ég mun koma að því í ræðu minni. Einnig leggjum við til hækkun á frítekjumarki öryrkja og afnám á skerðingu lífeyrisgreiðslna og atvinnutekna. Ég ætla að fara vítt og breitt um og byrja ræðu mína á almennum athugasemdum.

Áætlanir stjórnvalda síðustu misseri hafa einkennst af mun meiri bjartsýni en efni hafa staðið til og er það nú að koma í bakið á mönnum. Það var treyst á áframhaldandi stöðuga uppsveiflu, einnig þegar mörg teikn voru komin á loft um aukna óvissu og merki um minnkandi hagvöxt. Eftir langt hagvaxtarskeið er nú gert ráð fyrir nær engum hagvexti í ár sem síðan fari rólega upp á við á næsta ári. Hagvaxtarspár eru lægri en þær hafa verið sem kemur niður á ýmsum verkefnum sem eru á höndum ríkisins og þá er mikilvægt að draga saman seglin í rekstri ríkisins. Það kallar samhliða á að nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að forgangsraða í rekstri ríkisins. Þessi minnkandi hagvöxtur birtist í fjárlagafrumvarpinu og nú liggur fyrir að ríkissjóður verður rekinn með meira en 10 milljarða kr. halla á næsta ári.

Miðflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á að stjórnvöld skapi forsendur fyrir öflugu atvinnulífi, hagsæld og almennri velmegun. Stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum á að fela í sér hvata til fyrirtækja til að fjölga hjá sér starfsfólki og bæta kjör þess, auk þess að skapa skilyrði fyrir nýsköpun og frekari fjárfestingar í atvinnulífinu. Miðflokkurinn leggur þunga áherslu á að einfalda stjórnkerfið og draga úr bákninu fremur en að auka við það. Allar slíkar aðgerðir létta byrðar af atvinnufyrirtækjum og heimilum landsmanna. Þá verður að gera kröfu um eðlilega skilvirkni og hagræðingu í allri starfsemi hins opinbera.

Að mörgu er að hyggja þegar litið er til hagvaxtar og ber þar hæst útflutningstekjur þjóðarinnar. Undanfarin ár höfum við horft upp á fordæmalausan vöxt í ferðaþjónustu sem skapað hefur drjúgan hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Margt bendir til að þar sé ekki á vísan að róa og var gjaldþrot flugfélags verulegt áfall á yfirstandandi ári. Vonir standa til að það áfall verði ekki til þess að um langvarandi samdrátt verði að ræða. Það vekur því athygli að þessi stærsta tekjulind þjóðarinnar á liðnum árum fær skert framlög samkvæmt þessu frumvarpi og nemur niðurskurðinn yfir 10%.

Þá má nefna loðnubrest á árinu og var það ekki bara högg fyrir ríkissjóð, það var ekki síður högg fyrir mörg bæjarfélög þar sem loðnuveiðar eru stór þáttur í atvinnulífi þeirra byggðarlaga. Hér má einnig minnast á humarveiðar sem hafa dregist verulega saman á síðustu árum og ná varla að vera tíundi hluti af því sem þær voru fyrir áratug.

Allt þetta sem ég nefndi, færri ferðamenn, minni loðnuveiði og minni humarveiði, kallar á minni tekjur fyrir ríkissjóð og við því þarf að bregðast. Miðflokkurinn telur einsýnt að viðbrögðin eigi að markast af því að draga úr umsvifum opinbera kerfisins. Það er ekki hægt að sjá það í fjárlagafrumvarpinu.

Herra forseti. Ég ætla að fara úr einu í annað í ræðu minni. Ég ætla að impra á hinum alræmdu skerðingum sem lífeyrisþegar mega berjast við alla daga. Þær eru þannig úr garði gerðar að lífeyrisþegar geta sig hvergi hrært öðruvísi en að þola skerðingar á greiðslum almannatrygginga langt umfram það sem eðlilegt mætti teljast. Almannatryggingakerfið sem er að nokkru rekið með því móti að það þurfi að reiða sig á lífeyrisgreiðslur þess fólks sem hefur stritað fyrir þeim réttindum sínum er kerfi sem þarf virkilegrar endurskoðunar við. Upphaflega hugsunin á bak við lífeyrissjóðakerfið var ekki að útiloka almannatryggingarétt viðkomandi heldur kæmi það til viðbótar. Fólk vann sér inn aukinn rétt með vinnu sinni en nú er þessu algjörlega snúið á haus. Það hlýtur að vera keppikefli okkar allra að ýta undir sjálfsbjargarhvöt fólks sem öllum er í blóð borin. Ef lífeyrisþegar vilja og geta unnið og aflað sér með því hóflegra tekna á ríkið ekki að skerða lífeyristekjur þeirra á móti umfram venjulega skattheimtu. Það er ekki boðlegt að koma í veg fyrir að lífeyrisþegar geti unnið sér inn nokkrar tekjur án þess að vera skertir í bak og fyrir. Þetta snýst um lífsgæði líka, lífsgæði þeirra sem komnir eru á efri ár. Lífsgæðin eru m.a. fólgin í því að eldra fólk komist meira út á meðal fólks, njóti samvista og finni sig einhvers megnugt.

Herra forseti. Ríkisstjórnin virðist hafa það sem sérstakt áhugamál sitt að leggja á nýja skatta sem eiga að hafa eitthvert annað eðli en skattar hafa almennt haft hingað til. Ég hef nefnt þá indæla skatta því að þeir eiga að færa þeim sem borga þá sérstaka og indæla upplifun þegar þeir eru reiddir af hendi. Þetta eru hinir svokölluðu grænu skattar og skattar sem eiga að breyta hegðun og eru í sérstöku uppáhaldi hjá stjórnvöldum þessa dagana. Ég nefni sem dæmi kolefnisgjaldið og sykurskattinn. Hvernig gengur annars, herra forseti, að útrýma þeim sköttum sem lagðir voru á hér eftir hrun, þeim 100 sköttum sem voru taldir sem dæmi um gott hugmyndaflug vinstri stjórnarinnar sem hér stjórnaði á árunum 2009–2013? Hvernig gengur það? Eða er þetta bara hrein viðbót sem við horfum hér upp á? Það heyrist fremur lítið af þeim vígstöðvum og þessi ríkisstjórn virðist á sömu vegferð.

Ráðgert er í fjárlagafrumvarpinu að leggja á nýja skatta vegna urðunar úrgangs sem skila áttu 1,5 milljörðum kr. í auknar tekjur á næsta ári og meira síðar þegar þeir yrðu að fullu komnir til framkvæmda. Sveitarfélögin og urðunarstöðvar hafa lýst yfir áhyggjum af því að skatturinn leggist á íbúa óháð því hversu vel þeir standa sig við að flokka úrgang. Skatturinn átti að koma til framkvæmda um áramót og fyrirtæki í móttöku sorps að innheimta hann. Sorpa hefur gagnrýnt fyrirhugaðan urðunarskatt harðlega og sveitarfélögin kvarta yfir samráðsleysi. Telur Sorpa augljóst að tilgangur hugmynda um þennan skatt sé ekki verndun umhverfisins eða aukning á endurvinnslu eða endurnotkun og tilgangurinn virðist ekki heldur vera að minnka úrgang því að urðunarskattur sé ófullnægjandi stjórntæki til þess. Reiknast Sorpu til að meðaltal urðunarskatts þar sem hann er lagður á í nágrannalöndunum sé tæpar 5 kr. en 4,5 kr. ef allra hæsti skatturinn er undanskilinn. Hér var hins vegar áformað að urðunarskattur yrði 15 kr. á kíló og það þýddi 62% hækkun á urðunargjaldi hjá Sorpu. Það er því sérstakt fagnaðarefni að í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar sé fallið frá áformum um álagningu urðunarskatts og ljóst að þessari nýju skattheimtu er frestað, a.m.k. um sinn. Þessar hugmyndir um urðunarskatt vekja ýmsar spurningar, m.a. um hverjir sjái um sorpmálin. Það eru sveitarfélögin. Ætlar ríkið þá að aðstoða þau í því með þessari skattheimtu? Á hverjum lendir skatturinn? Íbúum og fyrirtækjum í landinu. Hverjir urða? Hverjir sjá um urðun? Hverjir borga fyrir urðunina? Hver verða áhrif þessa skatts? Nokkrir hv. stjórnarþingmenn hafa talað fyrir því að þetta myndi minnka urðun. Hvað á fólk þá að gera við sorpið sitt? Þetta gæti leitt til einhverrar aukningar á því að fólk losi sig hreinlega við sorp á óæskilegum stöðum. Erum við að biðja um það?

Ríkisstjórnin kom ekki með neinar tillögur um í hvað ætti að verja þessu fé. Það er engar tillögur um það, þetta er bara skattlagning. Ég hefði haldið að ef slíkur skattur yrði lagður á yrði hann til að auðvelda vinnslu þessa úrgangs, flokkun, endurvinnslu og brennslu. Ég lagði fram fyrr í haust tillögu til þingsályktunar um að könnuð yrði hagkvæmni þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð hér á landi eins og títt er í langflestum nágrannalöndum okkar þar sem sorp er brennt og varminn nýttur til rafmagns- og varmaframleiðslu. Það er alveg sama hvað við munum endurnýta mikið í fyrirsjáanlegri framtíð, það verður alltaf einhver úrgangur eftir sem þarf að brenna. Plast er í raun ekkert nema unnin olía þannig að það að brenna plast og annan úrgang er raunverulega það sama og að brenna olíu. Hví skyldum við ekki huga að því hversu hagkvæmt það er að reisa hér sorpbrennslu sem yrði samkvæmt ýtrustu kröfum um mengunarvarnir, myndi skila okkur varma og rafmagni og losa okkur við sorpið? Nei, menn sáu ýmsa agnúa á þeirri tillögu. Kannski halda menn að hægt sé að endurnýta og endurflokka svo mikið að ekkert verði eftir. Þeir sem ég hef talað við og eru fróðir í þessum málefnum telja svo alls ekki vera.

Við erum með 250.000 tonn af sorpi á ári. Hvað er hægt að minnka það mikið með endurvinnslu? 10%? 20%? Það eru mörk á því hversu neðarlega við getum farið þannig að við þurfum alltaf að brenna eitthvað nema menn vilji flytja sorpið til útlanda. Mér heyrðist á sumum þingmönnum í umræðum um þetta mál að það væri afskaplega hagkvæmt að sigla með það á skipum sem blása út gróðurhúsalofttegundum á ferð sinni yfir hafið og brenna það annars staðar. Það mengar hins vegar ekki minna að brenna það annars staðar en á Íslandi þannig að ég er hissa á viðbrögðum stjórnarþingmanna við þessari tillögu og tel einsætt að málið verði skoðað ofan í kjölinn og metið hvort það sé hagkvæmt. Þetta er dýr framkvæmd en við getum þá orðið sjálfbær með úrganginn okkar. Við skulum ekki vera sóðar, við skulum sjá um okkar úrgang sjálf.

Herra forseti. Hjúkrunarheimilin í landinu eru ein af mikilvægustu grunnstoðum íslenska velferðarkerfisins. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við þau áform í stjórnarsáttmála að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila og dagþjálfun. Frá því að ríkisstjórnin tók við hefur hún stöðugt skert framlög til reksturs hjúkrunarheimila en rekstur þeirra er almennt mjög þungur. Rammasamningur hjúkrunarheimila og Sjúkratrygginga Íslands rann út um áramótin 2018 þegar Sjúkratryggingar breyttu aðferðafræði sinni við útgreiðslu fjármagns. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands var tekin einhliða og án viðræðna við hjúkrunarheimilin, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga. Miðflokkurinn telur brýnt að mæta þeim rekstrarerfiðleikum sem ríkja hjá hjúkrunarheimilum landsins og leggur fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstakt viðbótarframlag til hjúkrunarheimilanna upp á 800 millj. kr. til að bæta úr og mæta brýnum rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna.

Miðflokkurinn leggur til hækkun á fjárframlögum til skógræktar um 30 milljónir. Ég ætla að ræða um skógræktina í nokkrar mínútur og glugga fyrst í bækling sem var gefinn út af Stjórnarráði Íslands í júlí sl. sem ber heitið Bætt landnýting í þágu loftslagsmála og ber undirtitilinn „Kolefnisbinding og samdráttur í losun frá landi“. Við kynningu í Elliðaárdalnum var aðgerðunum lýst þannig að þær ættu að tryggja að við næðum að verða kolefnishlutlaust land árið 2040. Þarna er að finna aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og segir í upphafsorðum, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Íslands hefur lagt fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Markmið hennar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins og kostur er og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og uppfyllt markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi landsins árið 2040.“

Í bæklingnum er að finna fimm aðgerðir um þetta og ein þeirra hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skógrækt. Efling nýskógræktar til kolefnisbindingar. Aðgerðin felur í sér eflingu skógræktar í því skyni að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti …“

Síðar í bæklingnum segir, með leyfi forseta:

„Með ræktun skóga má binda verulegt magn koldíoxíðs úr andrúmslofti og binda í viði og jarðvegi. Endurheimt birkiskóga, landgræðsluskógar, ræktun skóga til útivistar og timburnytja eru allt dæmi um aðgerðir sem skila ávinningi fyrir loftslagið og vinna jafnframt að öðrum markmiðum sem samræmast markmiðum stjórnvalda. Lögð verður sérstök áhersla á að nýr skógur verði ræktaður á landi sem losar kolefni úr jarðvegi.

Gert er ráð fyrir að umfang skógræktar í helstu verkefnum aukist úr um 1.100 hekturum á ári árið 2018 yfir í 2.300 hektara árið 2022 og að aukningin skili kolefnisbindingu sem samsvarar alls um 33.000 tonnum CO2-ígilda árið 2022. Unnið er að skógrækt í samstarfi við landeigendur, félagasamtök, fyrirtæki, sveitarfélög og aðra aðila.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Þetta eru stórar áætlanir. Það á að auka skógrækt um meira en helming á þessu árabili, 2018–2022. Síðan er tíundað í þessum fallega bæklingi að ræktaðir verði helmingi fleiri hektarar í nýskógrækt árið 2022 en á síðasta ári, 2.300 hektarar. Allt er þetta afskaplega fallegt og lítur vel út á blaði en staðreyndin er samt sú að á meðan þessi fallegi texti er skrifaður og gefinn út lækka stjórnvöld framlög til Skógræktarinnar um tæplega 30 milljónir og meira ef tekið er tillit til ýmissa breytilegra liða sem Skógræktin hefur notið hingað til, allt að 140 milljónir. Hér fara ekki saman orð og gjörðir, herra forseti. Við getum ekki aukið kolefnisbindingu með skógrækt og skorið niður framlög til Skógræktarinnar á sama tíma. Það gengur bara ekki upp. Skógrækt er og á að vera eitt af mikilvægustu tækifærum Íslendinga til að binda kolefni úr andrúmslofti og þar af leiðandi mikilvægt framlag í loftslagsmálum. Það vekur undrun að samtals lækka fjárveitingar til Skógræktarinnar um 144 milljónir í fjárlagafrumvarpinu ef tekið er tillit til fjárveitinga síðasta árs og loforða sem gefin voru um aukningu fjárveitinga vegna kolefnisbindingar. Það er því ljóst að Skógræktin mun ekki geta sinnt þeim verkefnum sem henni eru ætluð með aukinni nýskógrækt verði þetta raunin. Niðurskurður til Skógræktarinnar er á skjön við áherslur um mikilvægi skógræktar þegar kemur að kolefnisbindingu.

Með skógrækt skapast fjölmörg störf í landinu til framtíðar, aðallega í dreifbýli, og vinnsla úr íslenskum skógum sparar dýrmætan gjaldeyri. Skógurinn fer ekki neitt þrátt fyrir sveiflur í hagvexti, fækkun ferðamanna eða aflabrest. Hann liggur og ávaxtar sig til langrar framtíðar og skapar atvinnu fyrir komandi kynslóðir. Skógurinn veitir skjól og skapar skilyrði fyrir ýmsa aðra gróskumikla ræktun. Nýskógrækt dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rofnu landi og bindur kolefni í jarðvegi. Minni framlög til skógræktar til skamms tíma hafa alvarleg áhrif á uppbyggingu þeirra gróðrarstöðva sem ala upp ungplöntur sem nauðsynlegar eru svo það átak geti hafist í þeirri uppbyggingu sem stjórnvöld hafa sjálf boðað.

Ég er ekki að finna þetta upp, herra forseti. Stjórnvöld boða þetta en svo lækka þau framlögin. Fjármagn skortir til að greiða fyrir plöntur sem þegar er búið að semja um framleiðslu á. Minni framlög til skógræktar þýða til lengri tíma minni kolefnisbindingu í skógum sem gerir ómögulegt að standa við loforð um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Það þýðir minni viðarafurðir til lengri tíma, færri störf við úrvinnslu timburs og meiri innflutning á viðarafurðum í framtíðinni. Aðeins með því að beita vísindum og skynsemishyggju getum við náð raunverulegum framförum á sviði umhverfismála. Dæmi um slíkt er efling skógræktar og í því tilliti þarf að efla ræktun skógarplantna.

Miðflokkurinn leggur í þessu ljósi fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að framlag til skógræktar verði hækkað um 30 millj. kr.

Loks vil ég áður en ég lýk máli mínu um skógrækt benda þeim sem hafa efasemdir um skógrækt og bindingu skóga á kolefni á að það eru margfaldir bindingarmöguleikar með t.d. ösp samanborið við birki. Ef mönnum vex í augum hversu mikið land fer undir skóga er það ekki nema kannski 1–2% af landinu sem þarf til að binda alla losun á Íslandi af kolefni ef notuð er rétt tegund, þ.e. ösp. Við viljum það kannski ekki en ef við ætlum að nota íslenskt birki þarf kannski 10–20% af landinu til að binda sama magn. Menn þurfa að hafa skynsemina að leiðarljósi þegar þeir taka ákvarðanir ef við ætlum að vera kolefnishlutlaust land í framtíðinni. Þess vegna tel ég mikilvægt að við eflum rannsóknir á þessu sviði, eflum nýskógrækt og höldum áfram á þessari leið. Það tekur nokkur ár að starta svona verkefni og allt hökt í framgangi þess tefur málið um nokkur ár. Þess vegna leggjum við til að framlög til skógræktar verði hækkuð um þetta lítilræði svo við getum a.m.k. haldið haus í þessu máli. Ég vildi auðvitað sjá miklu meiri framlög til þessa málaflokks og hef lagt til áður í þessum ræðustól að skógrækt verði fjórfölduð miðað við núverandi plöntun.

Herra forseti. Ein af þeim breytingartillögum sem Miðflokkurinn hefur lagt fram við þetta frumvarp snýr að lögreglunni og einnig reyndar tollgæslu þar sem við leggjum til aukin framlög til þessarar starfsemi, löggæslu og tollgæslu. Við teljum að efla þurfi almenna löggæslu og sýnileika lögreglu og teljum að lögreglan hafi alls ekki verið reist upp eftir niðurskurð eftir hrun og reyndar langt frá því. Það sést best ef skoðaðar eru tölur um fjölda lögreglumanna en þær byggjast á svörum hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurnum frá þeim sem hér stendur. Þannig voru lögreglumenn á landinu öllu 692 á árinu 2006. Fyrr á þessu ári voru þeir 664 og hafði þá fækkað um nær 30 á 13 árum á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um tugþúsundir, ferðamannastraumurinn aukist í veldisvísum og afbrot sífellt orðið flóknari og alþjóðlegri. Á meðan allt þetta gerist fækkar lögreglumönnum þannig að allt tal um að lögreglan hafi verið efld er orðum aukið og kemur ekki fram í tölum um að lögreglumönnum hafi fjölgað í samræmi við fólksfjölda, verkefni lögreglu eða stóraukinn fjölda ferðamanna eða þá í samræmi við ráðleggingar lögregluyfirvalda sjálfra sem töldu nauðsynlegt fyrir sex, átta árum að fjölga lögreglumönnum um meira en 200. Síðan þá hefur þeim bara fækkað. Því leggjum við í Miðflokknum til að 300 milljónir verði lagðar umfram það sem er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu til lögregluembættanna níu í landinu sem kæmu þá að gagni við að auka sýnilega og almenna löggæslu í landinu sem hefur auðvitað verulegt forvarnagildi.