150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem mig langar að biðja hann að fara aðeins betur yfir með mér því að ég átta mig ekki alveg á öllu. Það snýr kannski fyrst og fremst að hagstjórninni. Ég skildi hv. þingmann ekki betur en svo að hann hefði sagt í upphafi máls síns að á þessum stað í hagsveiflunni væri mikilvægt að draga saman í rekstri ríkisins og draga úr bákninu. Ég hefði haldið að þá lægi svolítið í orðanna hljóðan að þar með ætti að skera niður en það er alls ekki það sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni heldur fór hann yfir breytingartillögur Miðflokksins og þær ganga út á að boða aukin útgjöld í vissulega aðra málaflokka en er gert í fjárlagafrumvarpinu en aukin útgjöld engu að síður og vissulega með fjármögnunarleiðum á móti. Mér finnst ekki alveg fara saman það sem er sagt, þ.e. að draga saman í rekstri ríkisins og draga úr bákninu en á sama tíma eru lögð til aukin útgjöld. Þetta hljómar svolítið eins og frasar í mín eyru. Af hverju ekki að tala bara um aðrar áherslur þegar það er í rauninni það sem mér heyrist Miðflokkurinn vera að tala um í fjárlagafrumvarpinu? Ég myndi gjarnan vilja að hv. þingmaður útskýrði þetta betur. Er honum alvara með að núna eigi að draga saman í rekstri ríkisins eða ekki?