150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Hún talar um að það líkist frösum þegar ég tala um að draga saman báknið, draga saman í ríkisrekstri og þegar ég legg svo jafnframt til aukin útgjöld til lögreglu og skógræktar, eins og ég nefndi í ræðu minni. Vegna þess að ég hafði mestan áhuga á þessu sem ég ræddi um hafði ég einfaldlega ekki orð á því að við leggjum einnig til 1.100 millj. kr. niðurskurð hjá öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins sem er 10% hagræðingarkrafa á ráðuneytunum. Það sparar þá 1.100 milljónir. Ýmsar aðrar hagræðingarkröfur eru hér inni sem ég ætla ekki að lesa upp, tillögurnar liggja fyrir í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Ég tel að við séum sjálfum okkur samkvæm þegar við leggjum það til að fyrst verði beitt hagræðingu á æðstu stjórn ríkisins, þ.e. ráðuneytin þar sem æðsta stjórn ríkisins er, og við teljum það ágætisbyrjun. Að sjálfsögðu hefðum við getað farið lengra og tekið allar stofnanir ríkisins og gefið út einhverja hagræðingarkröfu á þær. Okkur finnst hljóma betur varðandi málflutning okkar að byrja efst og leggja til að þar verði sparað fyrst í staðinn fyrir að fara niður í einstakar stofnanir. Ég var stjórnandi stofnunar í mörg ár og við vitum að stofnanir eru mjög misjafnlega á vegi staddar hvað hagræðingu og rekstur varðar. Sumar hafa kannski sparað árum saman og kannski ekki sanngjarnt að gera sömu kröfu á þær (Forseti hringir.) og einhverjar aðrar stofnanir.