150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil svar hv. þingmanns þannig að í rauninni sé hann ekki að meina að það sé mikilvægt að draga saman í rekstri ríkisins heldur vilji einungis draga saman í rekstri ráðuneyta. Ríkið er miklu meira en það og ríkið sér um miklu meira en það. (GBS: Er það ekki ríkið?) Það er ég sem er að spyrja spurninganna hérna.

Það er annað sem mig langar að spyrja út í og það varðar söluna á lóð Landsbankans sem gert er ráð fyrir að 2.000 milljónir fáist fyrir. Það kostaði Landsbankann 1.000 milljónir að kaupa lóðina en ég geri ráð fyrir að Miðflokkurinn geri ráð fyrir því að taka allar þessa 2.000 milljónir sem hann ætlar að geta fengið fyrir lóðina inn í rekstur ríkisins. Hvað sér hann fyrir sér að verði um þær 1.000 milljónir sem Landsbankinn lagði út? Mig langar að fá að vita hvernig þetta er hugsað því að mér finnst ekki borðleggjandi hvernig þetta gangi upp.

Svo vil ég að lokum segja hér, af því að hv. þingmaður talaði mikið um skógrækt, að ekki er verið að skera niður framlög til skógræktar. Það er hins vegar breyting á því hvar fjármagnið er sett. Það er aukning í skógrækt á lögbýlum og þess utan er tillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar um að setja einmitt 28 milljónir til skógræktarinnar þannig að það stenst einfaldlega ekki skoðun að það sé verið að skera niður til skógræktar.

Ég vildi gjarnan að hv. þingmaður kæmi inn á spurningarnar.