150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:49]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur kærlega fyrir spurningarnar sem voru margar og ég veit ekki hvort ég næ að svara þeim öllum. Við leggjum einnig til hagræðingu varðandi sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og erum raunverulega hissa á því að stjórnvöld taki ekki á sig rögg þegar sameining stofnana eins og þessara er annars vegar, stórra stofnana á toppi píramídans í stjórnkerfinu, að ekki sé gerð hagræðingarkrafa þegar þær stofnanir eru sameinaðar. Báknið blæs út og við erum að koma með þessa tillögu til að minnka það. Við gætum að sjálfsögðu farið í einstakar stofnanir ef við værum við stjórnvölinn.

Hún talaði einnig um ýmislegt annað, t.d. skógrækt. Ég er afskaplega ánægður ef meiri hlutinn ætlar að auka framlög til skógræktar, eins og hv. þingmaður kom að, um 28 milljónir. Ég er ánægður með það en við leggjum til 30 milljónir ef þið skylduð ekki hafa áttað ykkur á því að þarna er verið að skera niður til skógræktar. Ég held að það þurfi að gera miklu betur. Við þurfum að fara út í alvöruskógrækt með trjátegundum sem binda kolefni af miklu meiri krafti en stjórnvöld gera ráð fyrir í tillögum sínum til landgræðslu og skógræktar.

Varðandi Landsbankann og lóðasöluna þar vil ég segja að lóðaverð í miðbænum hefur náttúrlega hækkað gífurlega. Þarna er búið að teikna eitthvað og einhverjar framkvæmdir eru byrjaðar. Verðmæti lóða hækkar um leið og eitthvað er gert á þeim þannig að við teljum alls ekki ofaukið að hægt sé að fá 2 milljarða fyrir þessa lóð eins og hún lítur út í dag og miðað við þær framkvæmdir og ráðstafanir sem þarna hafa farið fram.