150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[23:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða um fjárlögin og að ég held að mörgu leyti ítarlegri umræða en síðast. Það var þó eftirtektarvert að þegar mál það sem hefur helst verið í fjölmiðlum í dag, Samherjamálið, náði einhvern veginn að skjóta rótum í húsinu minnkaði áhuginn á fjárlagaumræðunni einhverra hluta vegna en það er bara eins og gengur.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í gegnum fjárlögin. Ég ætla að koma örlítið inn á nokkrar breytingartillögur sem Miðflokkurinn hefur lagt fram. Það er vitanlega áskorun að setja saman fjárlög og það er enn erfiðara þegar það er samdráttur, það er alveg ljóst. Það er að sama skapi ekki ánægjulegt að við stöndum frammi fyrir því að ríkissjóður sé rekinn með halla í fyrsta sinn í sjö ár í það minnsta, sjö, átta ár, þannig að það er úr minna að moða, má orða það þannig. Þar af leiðandi höfum við lagt á það áherslu í breytingartillögum okkar að koma um leið með tillögur til þess að fjármagna þær og eðlilega er gagnrýnivert hvernig það er gert. Það er ósköp eðlilegt. Það er ekkert skrýtið við það en ég vil samt meina að þær tillögur og hugmyndir séu nokkuð í takt við þá umræðu sem hefur farið fram á okkar vegum undanfarna mánuði og misseri.

Það er svolítið sérstakt í ljósi þess að um talsverðan hallarekstur er að ræða að ekki sé brugðist við á þann hátt sem maður hefði kannski talið nokkuð sjálfsagðan, eins og t.d. með því að hætta við framkvæmdir við Stjórnarráðsbygginguna. Það er eðlilegt að gera hagræðingarkröfu á sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Í sjálfu sér ættum við alltaf að gera slíka kröfu þegar við sameinum stofnanir, deildir eða svið, eða hvað við köllum þetta, hjá ríkisapparatinu því að maður skyldi ætla það alla vega að sameining kallaði fram einhvers konar hagræðingu á starfseminni.

Mig langar að nefna eitt sérstaklega. Þingmenn Miðflokksins hafa farið ágætlega yfir þessar breytingartillögur og kannski óþarfi að tína þær allar til einu sinni enn því að þær liggja hér fyrir. Það er þó þannig að ef það þyrfti að finna enn þá meiri fjármuni til þess að minnka hallann eða fjármagna verkefni sem við teljum nauðsynlegt að fjármagna án þess að færa fjármuni á milli þá erum við að sjálfsögðu að reka mjög dýra starfsemi, t.d. Ríkisútvarpið sem tekur rúmlega 5 milljarða til sín en mætti að sjálfsögðu skera töluvert mikið niður. Í rauninni er kominn tími til að endurskoða hlutverk þeirrar stofnunar í ljósi þeirra samfélagsbreytinga sem hafa orðið og breytinga sem hafa orðið á fjölmiðlum og miðlum almennt hér á landi og í heiminum. Ríkisútvarpið er óþörf stofnun eins og hún er starfrækt í dag. Það mætti nota fjármunina þess vegna til að búa til meiri atvinnu í kringum til að mynda framleiðslu á efni o.fl. Við förum kannski yfir það seinna.

Við leggjum líka til og það hefur komið fram að lóð sú sem Landsbankinn hyggst byggja á verði seld. Það er alveg rétt sem hefur komið fram að það er einhvers konar armslengd þar á milli en við því má að sjálfsögðu bregðast með lagabreytingum eða með öðrum hætti. Það er vitanlega galið, ekki síst í samdrætti, að við séum að horfa á það að verið sé að byggja eitthvert glæsihýsi þegar okkur vantar fjármuni.

Það er líka mjög mikilvægt að við höldum áfram að horfa til þess hvernig við forgangsröðum. Ég hugsa að útkoman út úr þessu hefðu verið svolítið öðruvísi ef við hefðum verið með ríkisstjórn sem væri á öðrum hvorum ásnum í pólitíkinni. Ég reikna með að hægri menn hefðu mögulega farið í það að lækka skatta í von um að atvinnulífið myndi taka við sér og draga saman í ríkisrekstrinum. Vinstri menn hefðu sjálfsagt hækkað skatta og reynt að auka álögur á einstaklinga og fyrirtæki til að stoppa í gatið án þess að draga úr þjónustu. Það er hins vegar ekkert endilega lögmál að hagræðing dragi úr þjónustu. Má minna á það sem hefur verið nefnt hér, að svo virðist sem við gætum ekki ýtrustu hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu með því að nýta ekki þá tækni og getu sem við höfum t.d. hjá einkaaðilum í heilbrigðisþjónustu, það mætti gera mun betur. Við erum líka að búa okkur til ákveðin vandræði, til að mynda með því að ekki sé búið að semja við sérfræðilækna, sjúkraþjálfara, svo dæmi sé tekið. Það virðist vera tregða hjá heilbrigðisráðuneytinu eða heilbrigðisráðherra til að leysa vandamál sem snúa að einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni. Er það miður því að einkaaðilar eru gríðarlega mikilvægir þegar kemur að rekstri heilbrigðiskerfisins. Það er að sjálfsögðu hægt að gæta þess í slíkum rekstri að almenningur og einstaklingar hafi greiðan aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Yfir þessu er maður svolítið hugsi því að það eru klárlega tækifæri til að létta á ýmsum vanda.

Annað sem ég held að tímabært sé að skoða, og hugsanlega munum við taka það upp með einhverjum öðrum hætti í þinginu, er það hvernig Landspítalinn virðist geta tekið endalaust við fjármunum án þess að gerð sé almennilega grein fyrir því, að manni finnst, hvernig þeim er svo ráðstafað, hvers vegna þessi sífellda þörf er til staðar. Þingmenn fá oft og tíðum upplýsingar til sín sem menn reka upp stór augu yfir, t.d. yfir því hvernig staðið er að málum varðandi útboð og innkaup, hvaða kröfur eru gerðar þegar verið er að kaupa húsgögn, svo dæmi sé tekið, sem eru mjög dýr í stað þess að kaupa eitthvað sem er gott en ekki endilega rándýrt. Við förum kannski betur yfir þetta. Ég held að það sé alveg kominn tími til að menn fari ofan í kjölinn á því hvernig staðið er að hlutum hjá þessari mikilvægu og dýru stofnun okkar sem Landspítalinn er, sem er ein mikilvægasta heilbrigðisstofnun sem við eigum og þarf að sjálfsögðu að geta staðið og gert vel við starfsfólk sitt. Starfsfólkið er það dýrmætasta í þessari stofnun eins og í mörgum öðrum stofnunum og fyrirtækjum.

Við komum inn á tryggingagjaldið. Ég efast ekki um að a.m.k. hluti þeirra sem eru í stjórnarmeirihlutanum sé sammála því að þetta sé ósanngjarn skattur sem leggst misþungt á fyrirtæki. Sum fyrirtæki eru kannski ekki með mjög mikinn starfsmannakostnað, háa veltu og ráða vel við þetta en svo er því er öfugt farið hjá öðrum fyrirtækjum. Hátt tryggingagjald, háir skattar á atvinnulífið draga úr hvata til þess að fjárfesta, fjölga störfum o.s.frv. Einhver kann að segja að ef gjaldið yrði lækkað myndi fyrirtækið bara stinga því í vasann sem ávinnst með því. Það getur vel verið, en við höldum samt að það muni frekar leiða til vaxtar heldur en hitt.

Ég vænti þess að gefinn verði tími milli umræðna til að skoða aðeins þær breytingartillögur sem hafa komið fram. Við vonumst til að eitthvað af þeim verði samþykktar á morgun en ef að vanda lætur verða þær náttúrlega allar felldar af stjórnarmeirihlutanum. Þá er vitanlega hægt að koma með þær endurskoðaðar og kannski betur rýndar eða útfærðar milli umræðna. Ég held að það sé mikilvægt að nefndin gefi sér ágætan tíma til að hlusta og vinna. Ég veit að nefndin er vel samansett og formaður hennar hefur sýnt það að hann hlustar á þær raddir sem koma fram.

Miðflokkurinn hefur birt tillögur sínar og óþarfi að vera að lengja umræðuna um þær. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að berjast fyrir þeim sem og öðrum tillögum sem við teljum að séu til þess að bæta fjárlögin eða þann rekstur sem ríkið stendur að. Þetta er umfangsmikið, þetta er dýrt og mikilvægt að vel takist til. Við vonumst til þess að í endurskoðaðri fjármálaáætlun að ári verði horft til lengri tíma því að við getum ekki rekið ríkissjóð með halla mörg ár í röð og í rauninni getum við það alls ekki og eigum ekki að gera það. Það er ekki markmið okkar að gera slíkt.

Ég vona það, forseti, að þessi umræða sem hefur verið góð undanfarna daga verði til þess að menn skoði það, án þess að fara í einhver yfirboð, hvernig hægt er að ráðstafa fjármunum öðruvísi en við gerum í dag. Að sjálfsögðu erum við alltaf tilbúin í samtal með hverjum sem er sem vill reyna að gera betur í ríkisrekstrinum, leita leiða til að spara, hagræða, sameina og ná meiru út úr honum.