150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

orðspor Íslands í spillingarmálum.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að það er alvarlegt mál þegar formaður stjórnmálaflokks stígur upp á Alþingi og telur það rétta lýsingu á landinu okkar að því sé líkt við spillingarbæli. Ég tel að það sé engin innstæða fyrir svona dramatískum orðum og slíkri lýsingu á landinu okkar og að það sé í raun og veru algerlega með ólíkindum í tilefni af því máli sem við ætlum að taka alvarlega, láta viðeigandi stofnanir rannsaka og komast til botns í. Varðandi það hvernig málum er háttað í þessu tilviki held ég að ég vilji miklu frekar færa fram í umræðuna þá sýn á þetta mál að sýn umheimsins á Ísland og sýn okkar Íslendinga á það hvers konar þjóð við erum, í hvers konar landi við búum, ræðst ekki af einstökum svona málum heldur því hvernig við tökum á þeim, hvort við tökum þau alvarlega, hvort stjórnvöld bregðast við, hvort við höfum stofnanir til að taka á málum, rannsaka ákærur og dæma þar sem það á við, en ekki af einhverjum ótrúlegum útleggingum Samfylkingarfólks, sem ég hef fengið að fylgjast með síðasta sólarhringinn, um að rót alls vanda þessa máls liggi í sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu sem er mært um allan heim fyrir að færa íslensku þjóðinni umframverðmæti af nýtingu auðlindar borið saman við aðrar þjóðir, betri nýtingu af hverjum fiski, meiri verðmætasköpun fyrir hvern fisk dreginn á land o.s.frv., borið saman við það sem áður var þar sem við horfðum upp á gjaldþrot og litla verðmætasköpun í þeirri mikilvægu atvinnugrein okkar Íslendinga.

Ég ætla að svara spurningunum þannig að að sjálfsögðu hef ég áhyggjur af þessu máli. Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur af orðspori sem við Íslendingar getum séð bíða hnekki vegna málsins en það ræðst af því hvernig við tökum á málinu (Forseti hringir.) hvernig úr því spilast. Ef eftirlitsstofnanir þurfa aukið fé munu þær fá aukið fé.