150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

tengsl ráðherra við Samherja.

[10:40]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts til stjórnmála:

„Hagsmunaárekstrar eru algjör lykilþáttur í umræðu um siðferðilega ásýnd stjórnmála og stjórnsýslu. Jafnt kjörnir fulltrúar sem opinberir starfsmenn hafa aðgang að opinberum gæðum umfram aðra borgara og eru því oft í aðstöðu til að nýta sér þá í eigin þágu, tengdra aðila eða til að þjóna öðrum sérhagsmunum.“

Aðeins neðar í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Trúverðugleiki og traust á stjórnmálum og stjórnsýslu byggir á því að almenningur geti trúað því að stjórnmálamenn og embættismenn misnoti ekki aðstöðu sína.“

Einnig, með leyfi forseta:

„Sú tilhneiging er algeng að gera lítið úr eigin tengslum og oft treystir fólk sér til að fjalla á hlutlausan hátt um mál þrátt fyrir að um tengsl við málsaðila sé að ræða. Mikilvægt er hins vegar að átta sig á því að ásýnd skiptir öllu máli þegar um mögulega hagsmunaárekstra er að ræða. Spurningin getur því ekki verið sú hversu vel einstaklingurinn treysti sjálfum sér, heldur hvernig tengsl blasa við öðrum.“

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ítrekað gert mikið úr sjálfstæði sínu frá útgerðum en er engu að síður í miklu óformlegu sambandi við eigendur stærstu útgerðar landsins. Hann er fyrrverandi stjórnarformaður Samherja og æskuvinur núverandi forstjóra félagsins. Bara síðast í gærkvöldi var bersýnilegt í viðtali við hann í Kastljósi að hann átti greinilega erfitt með að greina á milli hvenær hann var að tala við vin sinn og hvenær hann var að ræða við forstjóra stærstu útgerðar landsins sem sjávarútvegsráðherra, forstjóri sem kynnir ráðherra sem sinn mann.

Forseti. Ég gef hæstv. ráðherra það að hann telji mikilvægt að efla traust til stjórnmála, traust sem er í sögulegu lágmarki, en er ráðherra sammála greinarhöfundi skýrslunnar um að ásýnd skipti öllu máli þegar um mögulega hagsmunaárekstra (Forseti hringir.) er að ræða? Ásýnd? Þetta er ein spurning. Mér þætti vænt um ef ráðherra svaraði hreinskilnislega.