150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

umsvif Samherja og veiðigjöld.

[10:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar mig að byrja á því að segja að ég held að það sé enginn hér inni, enginn einasti þingmaður og sennilega enginn Íslendingur, sem ekki þekkir þá viðskiptahætti sem blinda auganu hefur verið snúið að þegar kemur að því að íslensk fyrirtæki sem og önnur fyrirtæki hafa leitað eftir því að fá að veiða í auðlindum annarra ríkja. Í þessu tilviki er Namibía undir, eitt fátækasta Afríkuríkið. Blinda auganu hefur verið snúið að því að enginn getur veitt í þessum löndum og fengið eitt einasta tonn upp úr sjó öðruvísi en að múta þar gjörspilltum stjórnmálamönnum. Þetta hefur algjörlega verið látið kyrrt liggja og blinda auganu snúið að því. Hvernig stendur á því að við eigum útgerðarfyrirtæki sem er orðið svo stórt og fyrirferðarmikið að það teygir anga sína í sennilega 26 dótturfélög úti um allar koppagrundir? Ég held þau séu jafnvel komin til Ástralíu.

Mér finnst við verða að átta okkur á einu. Við verðum að átta okkur á því að þetta fyrirtæki hefur skapað Íslendingum alveg gríðarlega fjármuni en um leið hefur að mínu mati verið búið svo gjörsamlega um hnútana að augunum hefur meira að segja verið lokað fyrir því hvernig farið er með byggðirnar í okkar eigin landi, litlu sveitarfélögin okkar, hvernig framsal kvótans er. Hæstv. fjármálaráðherra segir að við eigum ekki að vaða í fiskveiðistjórnarkerfið sem sé svo frábært. Auðvitað er frábært að verja auðlindir landsins. Auðvitað getum við ekki vaðið hér á skítugum skónum og tæmt allan fiskinn í sjónum, það þarf að hafa eftirlit og aðhald með því. En hvað með framsal kvóta og hvernig við höfum horft kinnroðalaust upp á það hvernig litlu sjávarplássin okkar eru að þurrkast út, hvernig við höfum lítilsvirt þau frá A til Ö?

Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra. Nú erum við nýbúin að keyra í gegn lög hér sem valda því að við fáum 2 milljörðum minna í ríkissjóð en ráð var fyrir gert í veiðigjöldum. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega þannig sem það er. Ég spyr: Er eðlilegt að við búum til þannig regluverk (Forseti hringir.) í kringum útgerðina að það skiptir engu einasta máli hvað þjóðin fær fyrir aðganginn, fyrir að veita þeim aðgang að sjávarauðlindinni okkar?