150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

umsvif Samherja og veiðigjöld.

[10:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Fjölgað á landsbyggðinni, segir hann. Já, það er sennilega út af því að fólk flýr unnvörpum þangað því að það hefur ekki efni á að leigja eða að vera hér, það er orðið svo dýrt að vera á höfuðborgarsvæðinu að fólk tekur á rás. Hann talar um að þúsundir fjölskyldna hafi byggt upp fyrirtæki, sannarlega, eins og ég benti á í fyrri ræðu. 7 milljarðarnir, 5 milljarðarnir, hvað sem er, það eru tvö ár síðan við fengum 11,3 milljarða í veiðigjöld af auðlindinni. Við erum að fara úr 7,1 milljarði sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu þegar mælt var fyrir því í haust í 1. umr., bara á milli 1. og 2. umr. erum við að lækka niður í 5 milljarða kr. Það er löggjafans að setja nýja reglu til að koma í veg fyrir það. Það þýðir ekkert að segja að ef við hefðum ekki sett ný lög hefði þetta lækkað enn þá meira. Það átti bara að setja öðruvísi lög. Það átti að setja reglur sem virka. Núna fyrst er sannarlega tækifæri til þess að sýna það og sanna og það eina sem við getum gert af einhverju viti er að tryggja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána eins og þjóðin hefur kallað ítrekað eftir. Ég ætla að vona að við getum öll verið sammála um það.