150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:20]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka Pírötum fyrir frumkvæðið að þessari umræðu og ábyrga umfjöllun um málið en það er nauðsynlegt að ræða þetta viðfangsefni á öllum stöðum stjórnkerfisins og stjórnsýslustigum. Siðferði, heilindi og heiðarleiki verða ekki skrifuð í lög en einhvern veginn urðu til þau orðatiltæki að margur verði af aurum api og að mikið vilji meira.

Það er ömurlegt til þess að vita að fólk og fyrirtæki séu tilbúin að nýta sér yfirburðastöðu sína til að græða og skilja eftir sviðna jörð, hvort sem er hér á landi eða utan landsteinanna, í þróunarríki í Afríku. Það er ljóst að orðspor Íslands hefur beðið hnekki á erlendri grundu og að mikið endurreisnarstarf er fram undan. Að íslensk fyrirtæki, einstaklingar og hvað þá stjórnmálamenn eigi fjármuni í skattaskjólum og stundi viðskipti í gegnum þau dregur að sjálfsögðu úr trausti á landi og þjóð. Þess vegna er gagnsæi og eftirlit lykilatriði í öllum viðskiptum, en getur verið að í menningu okkar og orðræðu umberum við um of spillingu? Spilling er misnotkun á valdi og þrífst því miður í öllum stjórnkerfum. Við Íslendingar verðum í okkar litla samfélagi að slíta á alla frændhygli.

Ég vil að lokum vitna í orð Henrys Alexanders Henryssonar siðfræðings, með leyfi forseta:

„… hvað fólki gengur til að sýna af sér það virðingarleysi gagnvart fólki í viðkvæmri stöðu sem mútugreiðslurnar bera með sér. Skilningsleysið á arðráninu er svo víðtækt að mann setur hljóðan. …

Hvað segir þessi atburðarás um íslenska þjóð og viðskiptalíf? …

Að skella allri skuldinni á uppljóstrara er þekkt bragð en lýsir um leið karakter þeirra sem þannig bregðast við.“