150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hvað er spilling og hvernig greinum við hana? Hugtakið spilling hefur í raun enga afdráttarlausa og óumdeilda merkingu en orðið er samt þannig að það vekur upp tilfinningar hjá okkur öllum, harðar tilfinningar hjá sumum, skömmustulegar hjá öðrum og enn aðrir hrökkva í vörn. Þrátt fyrir að ekki sé til nein einhlít skýring má halda því fram að spilling sé þegar misfarið er með opinbert vald til persónulegs ávinnings fyrir einn eða marga. Spilling er þannig á kostnað fjöldans í þágu fárra.

Þegar mörg merki birtast í samfélögum um að þar kunni spilling að þrífast veldur það gríðarlegu vantrausti á þá sem valdið hafa. Valdið getur verið alls konar; opinbert vald, lögregluvald, fjármunalegt vald, vald í viðskiptum, vald í dómskerfinu og vald yfir auðlindum. Þeir einu sem hafa í raun og veru vald til að móta umgjörð sem fyrirbyggir spillingu, eða segjum að minnki líkurnar á að spilling þrífist í samfélagi, erum við, stjórnmálafólkið sem mótar reglurnar. Hvar erum við þar þegar innan við 20% þjóðarinnar treysta okkur til að fara rétt með valdið? Það felast nefnilega mikil völd í að setja leikreglurnar en það felast líka heilmikil völd fyrir meiri hluta að setja ekki reglur, að tryggja að ekki séu leikreglur til staðar. Þar liggja mjög mikil völd, að bregðast ekki við þegar á reynir eða fyrirbyggja að leikreglur séu skýrar í þágu allra en ekki bara sumra.