150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þessarar lokaræðu minnar við þessa umræðu byrja á því að þakka ágætar umræður um fjárlagafrumvarpið, bæði 1. umr. og í þeirri sem er að ljúka, og segja að auðvitað greinir okkur á, auðvitað takast hér á pólitískar stefnur, auðvitað hafa menn skiptar skoðanir, en sú einkunn sem þetta fjárlagafrumvarp hefur fengið og við getum ekki annað en vísað til af þeim umsögnum sem höfum fengið er að nú, kannski í mjög langan tíma, er verið að staðfesta það að efnahagsstjórnin, stjórn ríkisfjármála, styðji vel við peningastefnu. Við látum ríkisfjármálin styðja við efnahagslífið. Við erum að ná ótrúlegum sögulegum árangri í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Við beitum þessu fjárlagafrumvarpi til að takast á við niðursveiflu. Við beitum þessu fjárlagafrumvarpi til að takast á við samdrátt. Við erum að örva efnahagslífið. Við höldum áfram að lækka skatta. Við erum að ná árangri í ríkisrekstrinum, gera hann skilvirkari. Við erum að leggja í merka vegferð um að breyta íslenskri stjórnsýslu og koma henni í stafrænt form og svo mætti lengi telja. Það er sú einkunn sem þetta fjárlagafrumvarp á sannarlega skilið.

Þessi staða er undirbyggð af ábyrgri stjórn efnahagsmála og ábyrgri stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum. Það er mikilvægt að við drögum þetta fram við lok 2. umr. þessa fjárlagafrumvarps. Við höldum áfram að styðja við og byggja upp. Við aukum fjárfestingar. Við erum sannarlega á réttri leið.

Ég þakka samstarfið í fjárlaganefnd á þessu hausti og formanni fjárlaganefndar fyrir góða verkstjórn á þeim vettvangi.