150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég hef helst gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir þá miklu útgjaldaaukningu sem stefnir í að verði á því kjörtímabili sem hún situr, sennilega met í að belgja út ríkisbáknið. En það er ekki bara met í útgjaldaaukningu sem er gagnrýnivert. Það er sá meginvandi í nálgun ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálin, sú gríðarlega óábyrga nálgun, að hún mælir árangur sinn í því hversu mikið henni tekst að auka ríkisútgjöld. Þar vildi ég óska þess að ríkisstjórnin horfði meira til skilvirkni opinbers rekstrar en ekki hversu mikið hann kostar. Sjálfur kem ég úr atvinnulífinu og þar dytti engum manni í hug að mæla rekstrarárangur sinn út frá því hvað honum tækist að auka rekstrarútgjöld fyrirtækisins mikið á milli ára. Það sem skiptir máli er umfang og gæði þeirrar þjónustu sem við eigum að sinna. Þar er áhyggjuefni þegar við horfum til árangurs þessarar ríkisstjórnar að þrátt fyrir alla útgjaldaaukninguna til heilbrigðiskerfisins, sem þó er hlutfallslega hvað lægst í útgjaldaaukningu ríkisstjórnarinnar á fyrstu þremur árum í starfi hennar, erum við enn að glíma við sambærilega biðlista og við vorum í upphafi kjörtímabilsins. Við erum enn ekki búin að taka á fráflæðisvanda Landspítalans. Við erum enn ekki búin að ná í skottið á okkur í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við erum ekki enn búin að ná að leysa rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna, sem er brýnn, og svo mætti áfram telja. Listinn er nokkuð langur um árangursleysi þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að heilbrigðismálum og velferðarmálum raunar líka. Við höfum enn ekki náð að ljúka endurskoðun á lagaumhverfi í kringum örorkulífeyri og mér sýnist að ríkisstjórninni muni ekki endast aldur til að ljúka þeirri endurskoðun né hafa fjármagn til þess á lokaári sínu í fjárlagagerðinni fyrir árið 2021.

Þrátt fyrir alla þá útgjaldaaukningu sem ríkisstjórnin stærir sig af reglulega hefur enn ekki tekist að auka nægjanlega mikið fjárfestingar í innviðum sem hafa verið sveltar undangenginn áratug. Fjárfestingarstig ríkisins er enn undir sögulegu meðaltali, þrátt fyrir alla útgjaldaaukningu ríkisstjórnarinnar. Alltaf þegar ríkisstjórnin lendir í vanda við það að ná saman endum á lokaspretti fjárlagagerðarinnar er gripið til samráðsins, þ.e. að draga úr fjárfestingum svo hægt sé að halda áfram að auka útgjöldin, því að þessi ríkisstjórn gerir engan greinarmun á rekstrarkostnaði og fjárfestingum. Það er bara grundvallarmunur þar á þegar við tölum t.d. um að ríkisfjármálin styðji við niðursveiflu í hagkerfinu, sem er alveg rétt, í fyrsta skipti í langan tíma tekst það af því að ríkisstjórnin hefur alltaf fylgt sömu stefnu, að auka útgjöldin eins mikið og hún hefur svigrúm til á hverju ári. Í þetta skiptið hitti hún á niðursveiflu í þeirri útgjaldaaukningu og fær þar af leiðandi í fyrsta skipti þau meðmæli. Í fyrri fjárlögunum tveimur fékk hún gagnrýni fyrir hið gagnstæða, að fjármálin væru þensluvaldandi í uppganginum sem þá var.

Það er sorglegt að ekki sé verið að nýta niðursveifluna núna til stóraukinnar opinberar fjárfestingar. Þetta er einmitt tímapunkturinn. Þetta er tækifærið fyrir hið opinbera til að gera góð innkaup, ef það mætti orða það svo, í opinberri fjárfestingu, meðan það er einhver slaki í hagkerfinu til að mæta nauðsynlegri innviðauppbyggingu. En því miður er það tækifæri farið forgörðum.

Það sem er hins vegar verst við útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar er að við erum að missa af tækifærinu til að draga úr þeim miklu skattahækkunum sem urðu í kjölfar hrunsins. Á þessu ári, eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni, greiða íslensk fyrirtæki og heimili tæplega 120 milljörðum meira í skatta en þau hefðu gert við sambærilegt skattstig og var árið 2007–2008. Það er brýnt að lækka skatta. Við erum orðin háskattaland. Þrátt fyrir allan þann efnahagslega uppgang sem við höfum upplifað undangenginn tæpan áratug, á einu lengsta samfellda hagvaxtarskeiðinu, tekst okkur ekki að lækka skatta að neinu ráði. Það væri ekki til betri leið til að örva hagkerfið en einmitt að lækka skatta til að örva einkaneyslu og örva fjárfestingarstig einkageirans. En nei, ríkisstjórnin telur ekki svigrúm til þess og leggur áherslu á að belgja báknið út enn frekar. Það verða eftirmæli þessarar ríkisstjórnar, hún verður báknríkisstjórnin.