150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða breytingartillögu sem var þegar búið að kynna í nefndaráliti en það vantaði einfaldlega tölurnar í breytingartillöguna sjálfa. Það kemur því fram sérskjal með nákvæmlega þeirri breytingartillögu. Það fór eitthvað í handaskolum. Við eigum nefnilega í smávandræðum með það að þegar við leggjum fram nokkrar breytingartillögur sem fara á sama lið þá summast þær allar saman og við getum ekki greitt atkvæði um hverja og eina breytingartillögu í einu heldur greiðum við atkvæði um heildina í einu. Það gengur einfaldlega ekki að mínu mati því að þingið á að sjálfsögðu að geta valið og hafnað hverri einni og einustu tillögu en ekki bara heildinni. Það geta verið þrjár mismunandi tillögur þó að þær detti inn á sama lið. Við eigum í smávandræðum með þetta og ég hvet til þess að við lögum það sem fyrst.