150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Þetta eru ömurleg fjárlög. Þarna — ég sagði það. Nú þarf ég að standa við þau orð. Ég geri það með því að útskýra af hverju ég nota orðið ömurlegt í tengslum við fjárlögin. Mér finnst ömurlegt að það sé ekki farið eftir lögum um opinber fjármál. Mér finnst ömurlegt að geta ekki séð af hverju það fara 10 milljarðar í eitt málefnasvið en ekki 9 eða 11. Mér finnst ömurlegt að það sé ekki útskýrt af hverju aðhaldi er beitt þarna en ekki hérna. Mér finnst ömurlegt að sjá tækifærum til að gera betur glatað enn eitt árið, tækifærum til að byggja upp í gegnum menntun og nýsköpun, til að koma á jafnræði í auðlindagjaldamálum, til að samþykkja nýjan samfélagssáttmála, til að byggja upp ungu kynslóðina og skapa tækifæri fyrir hana. Mér finnst ömurlegt að Ísland skorti framtíðarsýn, sérstaklega af því að það er nákvæmlega hérna sem framtíðarsýnin á að birtast, í fjármálaáætlun og fjárlögum. Þar á stefna stjórnvalda birtast ljóslifandi fyrir alla til að skoða, skilja, gagnrýna eða fagna. Í staðinn er fjárheimildum hent hingað og þangað af handahófi út frá forsendum sem ganga gegn lögum um opinber fjármál. Við eigum ekki að segja: Loftslagsvandamál — hei, setjum 6 milljarða í málið. Við eigum að spyrja hvert umfang vandamálsins er, safna saman hugmyndum um aðgerðir sem geta leyst vandamálið, greina hversu vel aðgerðirnar leysa síðan vandamálið og velja svo á milli. Mér finnst ömurlegt að við séum ekki að gera það heldur bara giska á einhverja af því er virðist handahófskennda upphæð sem við vonum að leysi vandamálið án þess að hafa hugmynd um hvort það takist eða ekki. Við vonum bara að það reddist, í versta falli í fjáraukalögum. Klassískt íslenskt fúsk.

Virðulegur forseti. Fjárlögin eru ömurleg af því það er algjörlega ömurlegt að sinna hinu mikilvæga hlutverki þingsins í fjárlagavinnunni, eftirliti með framkvæmd fjárlaga, þegar ráðherra segir að hann vanti 1 milljarð og þingið spyr af hverju og ráðherrann svarar: Af því bara. Þá getur þingið ekki spurt í eftirlitinu hvernig gangi. En ef ráðherra svarar hins vegar: Þá get ég fjármagnað tvö ný hjúkrunarheimili sem auka gegnumstreymi á bráðamóttöku og sparað þannig 500 milljónir á ári til framtíðar, getur þingið fylgt því eftir hvort aðgerðin sé til að byrja með raunhæf og síðar hvort hagkvæmnin haldi og nýtt þá 500 milljónirnar í eitthvað annað. Mér finnst ömurlegt að fjárlögin séu ekki svona, en þau eiga að vera svona miðað við lög um opinber fjármál. Ef þau væru þannig gætum við líka spurt hvort ekki væri ódýrara eða jafn áhrifaríkt að leggja áherslu á t.d. heimahjúkrun sem er annar valmöguleiki.

Mér finnst ömurlegt að fjárlögin snúist bara um stóru tölurnar en ekki stefnuna. Jú, það þarf að sinna hagsveiflunni og allt það, en hún lagast ekki sjálfkrafa ef opinber útgjöld eru aukin og álögur minnkaðar. Það er ekki töfraformúla. Það skiptir máli hvaða útgjöld eru aukin, hvernig og af hverju. Það skiptir líka máli hvaða álögur eru minnkaðar og af hverju. Það hjálpar að skoða hverjar stóru tölurnar eru. Í þessu fjárlagafrumvarpi er stærsta talan neikvæð, aukið atvinnuleysi upp á 10 milljarða.

En það er ekki allt svo vont að ekki sé eitthvað gott, loksins erum við að ná í áttina að sjálfbæru framkvæmda- og viðhaldsstigi í samgöngum. Bara sjálfsagt mál, allir hefðu gert það þori ég að veðja. Nýr spítali er bráðnauðsynlegur og velsældaráhersla eins og lengra fæðingarorlof er ánægjuleg, en það verður enginn grínisti af því að segja einn og einn góðan brandara og fjárlagafrumvarpið er svo sannarlega enginn brandari. Framlagt frumvarp til fjárlaga er nefnilega fúlasta alvara, það snýst um hvaða heimildir eru gefnar til framkvæmdarvaldsins á næsta ári og hversu vel er farið með skattfé almennings.

Síðasta ömurlega ósanngirnin sem kemur fram í frumvarpinu sem ég vil minnast á er ömurlegt viðbótarsamkomulag við kirkjujarðasamkomulagið. Þetta er hryllilega lélegur samningur um hryllilega lélegt samkomulag sem ég tel ekki standast stjórnarskrá og tel samninginn ekki standast lög.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er ömurlegur rymböggull. Það er sorglegt því að ég veit hvert metnaður fólks stefnir með þeirri forskrift sem er sett í lögum um opinber fjármál. Ég hlakka til þess að sjá frumvarp til fjárlaga sem nær þeim metnaði. Ég kenni aðgerðaleysi ráðherra og aðhaldsleysi þingsins um að ekki hafi náðst betri árangur með þetta frumvarp, enn ein fjárlög sem gera eftirlit með framkvæmd þeirra nær ómögulegt og gera ársskýrslur ráðherra eftir ár að tímaeyðslu. Ömurlega gert. Til hamingju.