150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessum fjárlögum verða framlög til framhaldsskóla lækkuð. Landspítalinn hefur boðað umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir. Öryrkjar þurfa að bíða eftir réttlætinu. Kvikmyndagerð er skorin niður um 30%. Framlög til Rannsóknasjóðs, Jafnréttissjóðs og almennrar lögreglu eru lækkuð og nú er jafnvel skorið niður til verndaðra vinnustaða öryrkja. Ekkert af þessu var sagt fyrir kosningar.

Hvenær sögðu Vinstri græn fyrir kosningar að lækka ætti veiðileyfagjöld um meira en helming á kjörtímabilinu? Sú yfirlýsing fór alla vega fram hjá mér. Samfylkingin leggur hér fram framsæknar breytingartillögur en það verður fróðlegt að sjá hvort þingmenn greiði atkvæði gegn tillögu okkar um aukin framlög til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra vegna Samherjamálsins. Munu þeir kjósa gegn framlögum til Landspítalans, framhaldsskólanna, SÁÁ, heilbrigðisstofnana úti á landi og til loftslagsmála?

Herra forseti. Verkin munu svo sannarlega tala skýrt í dag.