150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef ýmislegt við þessi fjárlög að athuga en almenna stefnan er alveg í rétta átt, það er bara nákvæmlega hvað er valið sem er mjög hulið og efasemdir um hvort í rauninni sé verið að velja bestu aðgerðirnar í átt að útgjöldum eða aðhaldi. Við Píratar leggjum til að útgreiddur persónuafsláttur verði borgaður til fólks, ónotaður, útgreiddur persónuafsláttur beint til fólks. Það gagnast ungu fólki langbest, þeim hópi þar sem tekjurnar hafa dregist saman miðað við gögn á tekjusögunni.is. Við leggjum til að leggja niður krónu á móti krónu skerðingu, leggja niður sóknargjöldin og hækka persónuafslátt á móti. Við leggjum til pening í frumkvæðisrannsóknir umboðsmanns Alþingis, að leggja niður kirkjujarðasamkomulagið og 550 milljónir aukalega í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð hvorn um sig til að efla nýsköpun og búa til ný tækifæri til framtíðar.