150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjárlagagerð þessarar ríkisstjórnar verður fyrst og fremst minnst fyrir nýja skatta í fallegum umbúðum, stanslausa stækkun ríkisbáknsins og andúðar í garð einkaframtaksins eins og í heilbrigðismálum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um skattalækkanir eru margvísleg gjöld hækkuð á móti. Skattkerfið verður stöðugt flóknara og þyngra í vöfum. Skil milli skatta og þjónustugjalda verða sífellt óskýrari. Áform um enn fleiri skatta bíða á hliðarlínunni, urðunarskattur og skattur á ferðaþjónustu eru handan við hornið. Sem fyrr er ríkisstjórnin í afneitun í efnahagsmálum. Treyst hefur verið á tímabundna aukningu tekna í uppsveiflu. Ríkissjóður verður rekinn með halla í fyrsta skipti í sjö ár. Komið er að þolmörkum í óvissusvigrúmi og lítið hefði mátt út af bregða til að áætlanir brystu og tekjur dygðu ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld.

Herra forseti. Stöðugt er sópað undir vandamálateppi ríkisstjórnarinnar. Kjörorð hennar er stærra ríkisbákn, dulbúin skattheimta og nýir skattar í fallegum umbúðum.