150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við hv. tillöguflytjandi erum bandamenn í baráttunni fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju eins og sést t.d. á því að við erum saman á þingsályktunartillögu hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar um fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Fjárlög eru hins vegar ekki staðurinn til að ná því fram, ekki frekar en fjárlög voru staðurinn til að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Lög um sóknargjöld eru kannski rétti staðurinn eða bara almennt frumvarp um heildarlög um trúar- og lífsskoðunarfélög eins og lagt er til í fyrrgreindri þingsályktunartillögu. Og fyrst talið berst að samræmi við stjórnarskrá og lög þá má ekkert lagafrumvarp samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Ef við myndum samþykkja þessa tillögu værum við de facto að fara fram hjá þeirri grein stjórnarskrárinnar og nema úr gildi lög um sóknargjöld og ég er ekki til í það þó að ég sé sammála þingmanninum um hið endanlega markmið.