150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:56]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Borgarlínan og skyld verkefni eru gríðarlega mikilvæg lyftistöng fyrir almenningssamgöngur í landinu og á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. Ríkið tekur nú þegar þátt í undirbúningi borgarlínunnar með framlagi samtals upp á 1,5 milljarða. Það er talið nóg af öllum hlutaðeigandi í þessum bransa. Tillaga hv. flutningsmanns Ágústs Ólafs Ágústssonar um framlag til þessara starfa með þeim rökstuðningi að það vanti fé frá ríkinu til þess arna vekur furðu, rétt eins og að þingmenn og meiri hlutinn í Reykjavíkurborg séu ekki í sama stjórnmálaflokki að hluta til, (Gripið fram í.) séu óskyldir í pólitík. Sem sagt, herra forseti, fé frá ríkinu til undirbúnings borgarlínu er til staðar og tillaga Samfylkingarinnar allsendis óþörf og ég greiði því atkvæði gegn tillögunni. (Gripið fram í.)