150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er margt undir í þessum málaflokki. Sjúkraflutningamenn hafa kvartað undan því lengi að það vanti sjúkrabílaskóla, þ.e. einfaldan sjúkrabíl með öllum tækjum og tólum til þess að kenna og æfa og endurmennta og sem hægt er að fara með hringinn í kringum landið til að halda fólki í æfingu. Þetta er algjörlega nauðsynlegt skref, segja þeir, til að geta haldið þessari menntun í gangi úti um allt land og viðbrögðum réttum og góðum. Þó að ekki væri nema að samþykkja þessa tillögu til þess að komast í áttina að því má tvímælalaust fara að huga að því innan þessa málaflokks að klára þetta mál.