150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:48]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nú dembist skammdegið og morgunkuldinn yfir okkur. Lítum því á nokkrar staðreyndir. Hjálparsími Rauða krossins fær tæplega þrjú símtöl á dag vegna sjálfsvígshugsana. Á tíu daga fresti er framið sjálfsvíg á Íslandi. Síðan deyr einnig á tíu daga fresti annar Íslendingur vegna ofneyslu lyfja, allt árið um kring. Sjálfsskaði meðal ungmenna hefur aukist og eiga Íslendingar heimsmet í neyslu þunglyndis- og kvíðastillandi lyfja. Núna blasir við að biðlistar hjá SÁÁ hafa aldrei verið eins langir. Þeir hafa aldrei verið eins langir í sögunni. Þessi tillaga Samfylkingarinnar er hógvær og hún mun ekki setja neitt á hliðina. Ég biðla til þingmanna að styðja þessa tillögu um aukna fjármuni til SÁÁ. Þessi tillaga mun skipta SÁÁ og þeirra frábæra starf miklu máli.