150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þarna erum við í Flokki fólksins að auka fjárframlög til öryrkja því enn eitt árið verður kjaragliðnun og öryrkjar og eldri borgarar eru skildir eftir. Enn eitt árið og það þriðja í röð verður króna á móti krónu skerðing ekki tekin af öryrkjum eins og hefur verið gert við eldri borgara og enn eitt árið er verið að sparka fjárhagslega í öryrkja. Það er ömurlegt til þess að vita að ár eftir ár séu öryrkjar og eldri borgarar skildir eftir. Allir hafa fengið kjaragliðnun bætta, allir nema eldri borgarar og öryrkjar. Við ættum að spyrja okkur inni í þessum sal: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta eru einu aðilarnir sem eiga að vera með breiðu bökin og einu aðilarnir sem eiga enn þá, eftir hrunið og allt, að herða sultarólina?