150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Á síðustu níu árum hefur kjaragliðnun til öryrkja verið hvorki meiri né minni en rétt um 30%. Er það ekki kaldranalegt að eini þjóðfélagshópurinn sem horfist í augu við 30% kjaragliðnun skuli vera sá hópur sem hefur það bágast í samfélaginu? Flokkur fólksins er að leggja hér til ríflegan stuðning. Við viljum að enginn hafi útborguð laun undir 300.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Öll þau mál sem við erum að kalla eftir fjármagni í eru til að reyna að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur. En auðvitað væri betra að setja 100 milljónir hér og 200 milljónir þar og 300 milljónir í hitt og þetta. En það sem skiptir máli er að af 22.000 öryrkjum lifa 70% á hungurlús í okkar umboði.