150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við studdum tillögu frá Flokki fólksins rétt áðan um að bæta kjör öryrkja en leggjum nú fram töluvert hóflegri tillögu sem ég óska eftir að þingmenn hugsi um. Hér er um að ræða viðbótarframlag til öryrkja sem hafa dregist mjög aftur úr. Ef við berum saman kjör öryrkja í dag við kjör öryrkja fyrir tíu árum, hreinar tölur, lítur þetta vissulega óskaplega vel út. En þá þurfum við líka að bera saman tölurnar hjá öllum almenningi nú og fyrir tíu árum. Það er nefnilega þannig að öryrkjar eru að dragast mjög aftur úr, jafnvel þeim sem hafa það verst, þeim sem er á lágmarkslaunum, þeim sem eru á atvinnuleysisbótum sem er tímabundið ástand. Um næstu áramót lítur út fyrir að grunnlaun öryrkja verði 90.000 kr. lægri en lágmarkslaun í landinu. Við erum þarna, herra forseti, að skilja öryrkja algerlega eftir. Ég bið þingmenn um að íhuga hvort það séu þau skilaboð sem þeir vilja senda öryrkjum í landinu.