150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það eru þessi smáverkefni hingað og þangað, ART-verkefnið, Aflið og hvað sem þetta heitir allt og nú líka Samtökin '78, sem er mjög góðra gjalda vert. En þetta var áður verkefni sem var inni í ráðuneytinu upp á 15 milljónir. Það er ekki verið að bæta við 20 milljónum eftir því sem mér best skilst í samtölum við fólk, ekki við Samtökin '78. Framlagið er ekki að fara upp í 35 milljónir í heildina eftir þeim upplýsingum sem ég fæ, þannig að það er heildaraukning upp á 5 milljónir, ekki 20 eins og hér er sagt.

Það á við um öll þessi smáverkefni hingað og þangað að það er einfaldlega þannig, og hefur verið vel staðfest, að ráðuneytin halda viljandi þessum verkefnum utan fjárlagarammans hjá sér til að fjárlaganefnd og Alþingi geti tínt þau inn eins og riddari sem kemur til bjargar á hvítum hesti. Það gengur ekki lengur að hafa þetta svona. Það er á ábyrgð ráðuneytanna að taka þessi verkefni ef þau eru að sinna þeirri samfélagsþjónustu sem er á þeirra ábyrgð.