150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:14]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nú er nánast komið að lokum þessarar atkvæðagreiðslu og ég vil vekja athygli á því að enn eitt árið hafa allar breytingartillögur stjórnarandstöðuflokkanna verið felldar. Ég furða mig á þessum vinnubrögðum. Í mörgum tilvikum er ekki verið að tala um háar upphæðir, kannski 30, 60, 100 milljónir. Þetta eru ótrúlega sérkennileg vinnubrögð. Hér er búið að boða, m.a. í stjórnarsáttmála og af hálfu ráðherranna, að við ætlum að taka upp önnur vinnubrögð og svo sjáum við bara gamaldags skotgrafarhernaðarpólitík endurspeglast í afgreiðslu fjárlaga. Það er alveg furðulegt, herra forseti, að ekki ein einasta tillaga stjórnarandstöðuflokkanna fái stuðning þingmanna Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Hvenær fáum við að sjá þessi nýju vinnubrögð? Átti ekki að efla þingið? Eða nær það bara til þessa hluta salarins, ekki hins? Ég vil lýsa yfir miklum vonbrigðum með að við sjáum ekki neinn stuðning við eitthvað af þeim tillögum sem við erum að leggja hér á borð því margar þessar tillögur eru í fullkomnu samræmi við jafnvel tillögur einstakra þingmanna sem þeir lögðu fram þegar þeir voru sjálfir í stjórnarandstöðu. Að sjá þessi sinnaskipti við það að menn fari í stjórn eru alveg ótrúlega mikil vonbrigði.