150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræn eignarskráning.

370. mál
[16:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga. Frumvarpið er á þskj. 460, mál nr. 370. Þetta frumvarp var unnið í fjármálaráðuneytinu með aðstoð frá nefnd skipaðri helstu haghöfum og felur í sér lögfestingu reglugerðar nr. 909/2014, um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og verðbréfamiðstöðvar. Í dag gilda lög nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa sem ná jafnframt til starfsemi verðbréfamiðstöðva.

Með frumvarpinu er lagt til að tiltekið ákvæði núgildandi laga, sem reglugerðin nær ekki til, verði færð í lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga. Ber þar helst að nefna ákvæði um eignarskráningu fjármálagerninga og þá réttarvernd sem hún felur í sér. Að öðru leyti er lagt til að lög nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, falli brott.

Meginefni frumvarpsins eru í fyrsta lagi að strangari kröfur verða gerðar til starfsemi verðbréfamiðstöðva og uppgjörs fjármálagerninga. Allir fjármálagerningar sem reglugerðin nær til skulu vera á rafrænu formi og verður uppgjörstími innan EES-svæðisins samræmdur sem viðskiptadagur að viðbættum tveimur dögum.

Í öðru lagi er kveðið á um breytta stjórnarhætti verðbréfamiðstöðva, áhættustýringu og ríkari eiginfjárkröfur. Allar verðbréfamiðstöðvar innan EES verða að sækja um nýtt starfsleyfi á grundvelli reglugerðarinnar sem mun gilda á öllu EES-svæðinu.

Í þriðja lagi fá verðbréfamiðstöðvar aukna ábyrgð á því að draga úr uppgjörsbrestum með því að beita sektum og uppgjörskaupum við uppgjörsbrest. Þá ber þeim að vakta uppgjörsbresti og senda eftirlitsstjórnvaldi skýrslu um öll slík tilvik.

Í fjórða lagi er kveðið á um eignarskráningu fjármálagerninga og þá réttarvernd sem hún felur í sér sem og skaðabótaábyrgð verðbréfamiðstöðva og reikningsstofnana.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi verðbréfamiðstöðva. Fjármálaeftirlitið mun hafa hefðbundnar eftirlitsheimildir, en þær viðurlagaheimildir sem ganga munu hvað lengst eru afturköllun starfsleyfis og álagning stjórnvaldssekta. Þá getur það varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að starfa sem verðbréfamiðstöð án starfsleyfis, afla starfsleyfis með ólögmætum hætti, efna ekki eiginfjárkröfu eða brjóta ákvæði um þagnarskyldu.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu munu hafa áhrif á starfsemi verðbréfamiðstöðva og þá aðila sem koma að uppgjöri fjármálagerninga. Frumvarpinu er ætlað að bæta uppgjör fjármálagerninga og draga þar með úr áhættu í fjármálakerfinu.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.