150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hæfi sjávarútvegsráðherra.

[15:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra hefur lýst yfir fullu trausti á hendur hæstv. sjávarútvegsráðherra í kjölfar Samherjamálsins vil ég ræða um hæfi sjávarútvegsráðherra og aðgerðir til að styrkja traust á stjórnmálum. Ég reifaði hér mikilvægan hluta skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum í óundirbúinni fyrirspurn minni við hæstv. sjávarútvegsráðherra í seinustu viku, en í umræddri skýrslu kemur fram, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er hins vegar að átta sig á því að ásýnd skiptir öllu máli þegar um mögulega hagsmunaárekstra er að ræða. Spurningin getur því ekki verið sú hversu vel einstaklingurinn treysti sjálfum sér, heldur hvernig tengsl blasa við öðrum.“

Mér þykir ljóst af svörum hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann sé ósammála niðurstöðum skýrslunnar um að ásýnd almennings skipti öllu máli þegar um mögulega hagsmunaárekstra sé að ræða.

Forseti. Lykilþáttur í mati embættismanna á sínu eigin hæfi er hvernig tengsl og aðrir hagsmunir embættismannsins í ákvarðanatöku virka út á við. Þannig skiptir máli hvaða ásýnd tengslin hafa gagnvart hinum almenna borgara en ekki hvað ráðherra sjálfum finnist um getu sína til að taka hlutlausar ákvarðanir. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að vera sammála þessari niðurstöðu sinnar eigin skýrslu.

Nú vitum við að hæstv. sjávarútvegsráðherra gerði það að sínu fyrsta verki að hringja í forstjóra Samherja, æskuvin sinn og fyrrverandi samstarfsmann, eftir að hann fékk spurningar frá fjölmiðli um vafasama starfshætti fyrirtækisins og spurði m.a. hvernig Samherji og Þorsteinn Már hygðust bregðast við yfirvofandi fjölmiðlaumfjöllun. Þessu lýsti ráðherra sjálfur í viðtali í Kastljósi fyrir örfáum dögum og fannst eðlilegt að hann sem sjávarútvegsráðherra hefði afskipti af málinu með þessum hætti, en á sama tíma spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra Þorstein Má hvernig honum liði — svona eins og vinir gera jafnan.

Gleymum því ekki, virðulegi forseti, að þetta er sami ráðherra og hefur sagst ætla að segja sig frá öllum málum tengdum Samherja komi upp einhver vafamál tengd fyrirtækinu. Í ljósi alls þessa og með vísan til mikilvægis ásýndar fyrir traust á stjórnmálum spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvaða skilaboð (Forseti hringir.) henni finnist hæstv. sjávarútvegsráðherra hafa sent út í samfélagið með þessu símtali sínu.