150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

Landsvirkjun og upplýsingalög.

[15:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nýlega barst þeim sem hér stendur skriflegt svar fjármálaráðherra við fyrirspurn um kostnað Landsvirkjunar við undirbúning sæstrengs. Svarið var rýrt og í því kom fram að upplýsingalög giltu ekki um Landsvirkjun. Ég brá því á það ráð að spyrja hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra út í þetta vegna þess að ég sætti mig ekki alveg við að þingið fái ekki svör við sjálfsögðum spurningum til fyrirtækis sem er í almannaeigu. Í stuttu máli sagt er ekki, við fyrsta yfirlestur á upplýsingalögum, nr. 140/2012, að finna ákvæði sem veitir Landsvirkjun undanþágu frá þeim lögum.

Ég leyfði mér um daginn, í umræðunni við hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að benda á annan málslið 2. gr. upplýsingalaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera.“

Hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði í svari sínu við þessari fyrirspurn minni, með leyfi forseta:

„Í því dæmi sem hv. þingmaður nefnir hér var það forsætisráðuneytið sem veitti undanþáguna.“

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er það svo að forsætisráðuneytið hafi á einhverjum tímapunkti veitt Landsvirkjun undanþágu frá upplýsingalögum og þá í krafti hvers og með tilvitnun í hvaða lög? Mig langar að spyrja forsætisráðherra um þetta. Mig langar líka almennt að spyrja hana hvað henni finnist um upplýsingaskyldu lögaðila sem eru að meiri hluta til í eigu ríkisins um fyrirspurnir sem berast frá Alþingi.