150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

189. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar í máli nr. 189, sem liggur hér frammi. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneytinu og einnig frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 29. mars á þessu ári um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins, en sá viðauki fjallar um fjármálaþjónustu, og um leið að fella inn í samninginn eftirfarandi þrjár gerðir:

Í fyrsta lagi reglugerð ESB frá 2013 um varfærniskröfur svokallaðar að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki og einnig um breytingu á reglugerð ESB frá árinu 2012.

Í öðru lagi er lagt til að felld sé inn í samninginn reglugerð Evrópusambandsins frá 2017 um breytingu á reglugerð Evrópusambandsins sem áður hafði verið felld inn 2013 er varðar umbreytingarfyrirkomulag til að draga úr áhrifum á eiginfjárgrunn vegna innleiðingar IFRS-staðals 9 og fyrir meðhöndlun tiltekinna áhættuskuldbindinga opinberra aðila gefnum upp í heimagjaldmiðli aðildarríkis sem stórra áhættuskuldbindinga.

Í þriðja lagi er verið að fella inn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2013 um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og fjárfestingarfyrirtækjum og um leið breytingu á tilskipun frá 2002 og um niðurfellingu á tveimur tilskipunum frá árinu 2006.

Þetta hefur utanríkismálanefnd farið yfir og framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála og nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta nefndarálit rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Smári McCarthy.