150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2019 um breytingu á II. og IV. viðauka við EES-samninginn.

271. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á II. viðauka samningsins, sem fjallar um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, og IV. viðauka samningsins sem fjallar um orkumál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Gaut Sturluson frá utanríkisráðuneytinu og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 29. mars á þessu ári um breytingar á II. viðauka og IV. viðauka EES-samningsins og um leið er óskað eftir heimild til að fella inn í samninginn tilskipun ESB frá 9. september 2015 um breytingu á tilskipun frá árinu 1998 um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun frá árinu 2009 um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og um breytingu og síðar niðurfellingu á tilskipunum frá árinu 2001 og 2003.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Hingað inn í þingsal munu sjálfsagt rata lagafrumvörp frá viðeigandi ráðherrum sem bíða þá efnislegrar umfjöllunar þingsins að þessu leyti.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Smári McCarthy. Aðrir nefndarmenn hv. utanríkismálanefndar voru fjarverandi við afgreiðsluna.