150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[17:13]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í ljósi þess að svarið var náttúrlega eins og mig grunaði er í sjálfu sér verið að stórauka við það sem er í dag. Ég hvet ráðherra til dáða í þeim verkum sem hann er í og vil þá minna á það sem við getum kallað hráakjötsfrumvarpið og að það mikla verkefni sem þar um ræðir klárist. Við sjáum alveg í hendi okkar að þegar við breytum tollkvótum og opnum einnig fyrir innflutning á hráu kjöti er mjög mikilvægt fyrir okkur og framleiðendur, hvort sem það eru á svínakjöti, alifuglakjöti eða einhverju öðru kjöti og öðrum landbúnaðarafurðum, að það frumvarp sem við höfum oft kallað hráakjötsfrumvarp komi til framkvæmda með þeim vörnum sem þar eru settar upp. Eins og ég skil svínabændur, og hef heyrt bæði á alifuglabændum og svínabændum, óttast þeir mjög mikið þær breytingar sem fram undan eru. Vissulega eru þetta áskoranir fyrir íslenskan landbúnað. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða varðandi það verkefni og það mikla verkefni sem við eigum fyrir höndum við að koma því frumvarpi sem við ræddum hér í vor og samþykkt var með 54 atkvæðum, ef ég man rétt, til framkvæmda á þeim tíma sem við gerðum ráð fyrir þegar frumvarpið var samþykkt.