150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[17:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eðlilega hafa framleiðendur áhyggjur af þessum þætti samkeppninnar. Það er fullkomlega eðlilegt að menn kvíði því að taka samkeppnisslag um þætti sem þessa. Það er fullkomlega eðlilegt og við verðum að sýna þeim sjónarmiðum skilning. Ef ég fer inn í frumvarpið sjálft er það hins vegar samdóma álit þeirra sem gáfu umsögn um það að það sem er í frumvarpinu varðandi bæði framkvæmd og umgjörð þessara mála stórbatni frá því sem var. Auðvitað verða einhverjir tilteknir þættir alltaf umdeildari en aðrir en í heildina tekið vil ég meina að bæði verslun, bændur og neytendur séu í grófum dráttum sammála um að þess er vænst að öll umgjörð og framkvæmd verði styrkari en áður var og það er töluvert unnið með því.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir síðan um mál um innflutning á ófrosnu kjöti þá bíð ég eftir tækifæri til að fá að flytja þinginu skýrslu um framgang þeirra mála, um aðgerðaáætlunina. Ég átti að flytja þinginu skýrslu í nóvember, hún er tilbúin í ráðuneytinu en það þarf bara að koma henni á dagskrá. Ég get upplýst hv. þingmann um að framgangur þeirra aðgerða gengur mjög vel.