150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

rannsókn Samherjamálsins.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir þessa harkalegu gagnrýni hv. þingmanns á eftirlitsstofnanir sem birtist í því að hún harmar að ekki hafi nú þegar verið farið í húsleitir og haldlagningu gagna. Eða er hv. þingmaður kannski með hugmyndir um það að ráðherrann eigi að taka slíkar ákvarðanir, að það sé góð hugmynd að hér á vettvangi stjórnmálanna, jafnvel í þinginu, séu teknar ákvarðanir um það að fara í húsleitir, að leggja hald á gögn og aðrar slíkar rannsóknaraðferðir? Ég hélt að við værum löngu komin út úr öllum slíkum hugmyndaheimi og værum sammála um að við hefðum traustar stofnanir sem tækju ákvarðanir byggðar á lögum um slíkar aðgerðir. Ég treysti þeim stofnunum til þess að gera það og hef enga ástæðu til að ætla að þar sé neitt annað en hrein fagmennska sem ráði niðurstöðunni.

Spurt er hvort einstaka eftirlitsstofnanir séu nægilega fjármagnaðar. Ég verð að byrja á því að segja að ég held að það sé afskaplega óheppilegt að við blöndum saman einstökum rannsóknarverkefnum og fjárveitingum, að við hér á hinu pólitíska sviði segjum af eða á um hvort fjármagna eigi tiltekna rannsókn eða ekki, af eða á með þessa rannsóknina — nei við þessari, já við hinni. Hvers konar þvælu værum við þá komin út í? Við höfum svarað almennri beiðni frá skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra um fjárveitingu vegna aukins álags almennt. Við sögðumst eiga varasjóði til að bregðast við því, almennan varasjóð, eftir atvikum sérstaka varasjóði.

Varðandi beiðni héraðssaksóknara um aukna fjárveitingu vegna álags fer hún í farveg. Við teljum að ef um er að ræða ófyrirséð aukið álag sem ekki er hægt að bregðast við með öðrum hætti sé hægt að fara í varasjóði (Forseti hringir.) sem eru til staðar. En ég hef engar áhyggjur af því að það embætti verði ekki fullfjármagnað til að sinna almennt þeim verkefnum sem því er falið.