150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

rannsókn Samherjamálsins.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég sit fyrir svörum sem fjármálaráðherra og ég fæ spurningu um það hvers vegna ekki hafi verið lagt hald á gögn og/eða eftir atvikum farið í húsleitir. Ef hv. þingmaður er að spyrja mig að þessu er ég búinn að svara því nú þegar. Ef hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að þetta skuli ekki hafa verið gert lít ég á það sem mikla gagnrýni á þær stofnanir sem þarna eiga í hlut. Ég veit ekki hvaða innstæða er fyrir því, ég held að hún sé engin, enda liggur fyrir að viðkomandi stofnanir eru þegar komnar af stað, hafa átt í samtali við þá sem eru nefndir í tengslum við Samherjamálið og þar að auki er komið fram að mörg þúsund, reyndar 30.000, skjöl eru aðgengileg fyrir þessar stofnanir á netinu og eru grundvöllur allrar umræðunnar um þau.

Þetta er það besta sem ég get gert þegar hv. þingmaður spyr mig: Hvers vegna er ekki búið að fara í húsleitir? (Gripið fram í.)