150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

tímabundnar úthlutanir veiðiheimilda.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit mætavel þá þurfti hvorki aðkomu formanns Framsóknarflokksins né flokksins yfir höfuð til þess að setja í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að fiskveiðistjórnarfyrirkomulag með tímabundnum samningum yrði tekið til skoðunar. Þeirri vinnu var ekki lokið. Það að menn hafi athugasemdir við ákveðna útfærslu af því þýðir ekki að menn séu kategórískt á móti sérhverri breytingu á því fyrirkomulagi sem við erum með í dag. Það er bara skrum að halda því fram, ekkert annað.

Ég hef hins vegar alltaf spurt mig, þegar á góma ber hugmyndir Viðreisnar um uppboð á aflaheimildum, hvernig flokkurinn hyggst tryggja hið dreifða eignarhald. Eftir því sem menn gera kröfu um hærra veiðigjald er ljóst að það verða einungis hinir fáu stóru sem munu geta risið undir gjaldinu og eftir því sem menn ætla að auka frelsið með viðskipti með aflaheimildirnar, t.d. með því að bjóða þær allar upp á hverjum tíma, verður hreyfanleiki þeirra mögulega meiri og líkurnar á því að þær safnist á færri hendur aukast verulega. Daði Már Kristófersson prófessor orðaði það þannig á sínum tíma að besta leiðin til að stórauka framleiðni í sjávarútvegi, auka hagræði, væri að hækka veiðigjaldið. Það tryggir að heimildirnar fara á færri hendur en það er einmitt hluti gagnrýninnar þessa dagana að veiðiheimildirnar séu á of fárra höndum. Þá koma menn eins og hv. þingmaður hér upp í ræðustól og segja: Allar heimildir á markað, við skulum taka upp tímabundnar heimildir, fyrnum heimildirnar allar og tryggjum frjáls viðskipti með allan kvóta. Það mun auðvitað á endanum ekki leiða til annars en að það verða enn færri og stærri aðilar en við sjáum í dag vegna þess að allir sjá í hendi sér að það eru bara þeir allra stærstu sem munu geta risið undir stórhækkuðu veiðigjaldi sem þessir aðilar boða.