150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að stíga hér upp og bera af mér sakir um að vera að brjóta lög við framkvæmd fjárlaga í landinu. Það væri nær að hæstv. forseti vítti þingmenn sem bera það upp á aðra þingmenn hér í þingsal að vera að brjóta lög. Fyrir því er enginn fótur, ekki nokkur einasti fótur. Það er auðvitað ekkert annað en pólitísk tækifærismennska sem birtist okkur hér í þingsal þegar menn fara fram með þeim hætti að segja ríkisstjórnina, fjármálaráðherrann, ætla að fjársvelta stofnanir þegar við höfum margítrekað sagt að við höfum tekið erindin til alvarlegrar athugunar, við höfum tryggt fjármögnun fyrir skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra nákvæmlega í samræmi við það sem um var beðið og að beiðni héraðssaksóknara sé í eðlilegum farvegi. Að menn leyfi sér að koma hér upp í þingsal í pólitískri tækifærismennsku, eins og Samfylkingunni er reyndar dálítið tamt að gera, (Forseti hringir.) er bara dapurlegt fyrir flokkinn, dapurlegt fyrir þingið, dapurlegt fyrir þessa mikilvægu umræðu.