150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það sem er dapurlegt er sú pólitíska tækifærismennska sem kemur hérna fram í máli fjármálaráðherra. Hann segir að fjármögnun til þessara embætta sé tryggð. Hins vegar er í rauninni rétt að það er einmitt enginn fótur fyrir því sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur fram, að það vanti upp á peninga. Það er frekar fótur fyrir því að skortur sé á fjármagni til þeirra eftirlitsstofnana sem eiga að sinna þessum verkefnum. Það er frekar fótur fyrir því að verið sé að koma í veg fyrir rannsóknir í staðinn fyrir að velja rannsóknir sem eigi að sinna og hverjum ekki. Það er frekar fótur fyrir því að verið sé að koma í veg fyrir rannsóknir með því að svelta eftirlitsstofnanir okkar. Við skulum hafa það algjörlega á hreinu að það er fullur rökstuðningur fyrir þessu fjármagni. Það sem er ekki rökstuðningur fyrir eru fjárlögin í heild sinni. Þar vantar rökstuðning frá A til Ö. (Forseti hringir.) Það er engin kostnaðar- og ábatagreining, það er engin forgangsröðun verkefna, (Forseti hringir.) ekki neitt sem gefur okkur þingmönnum tækifæri á því að segja já eða nei um þetta fjárlagafrumvarp eða þær fjárheimildir sem ríkisstjórnin á að hafa á næsta ári, ekki neitt.