150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Alveg eins og við heyrðum sem sátum í þessum sal og hlustuðum á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra svara óundirbúnum fyrirspurnum hér fyrr sagði hann margsinnis að hann myndi vísa í varasjóði fyrir árið 2020 fyrir rannsókn á málum sem algjörlega er fyrirséð að þarf að veita fjármagn í — og það eru brot á lögum um opinber fjármál. (Fjmrh.: Það er rangt.) Það er 24. gr., (Fjmrh.: Það er bara rangt.) hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég skal láta þig fá hana hér þegar ég er búin að lesa hana upp. Það má fara í varasjóðinn ef útgjöld eru „tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum þessum“. Ef þingið sem er fjárveitingavaldið getur ekki samþykkt tillögu um aukið fjármagn vegna þess að það er búið að afgreiða fjárlögin — (Forseti hringir.) en svoleiðis er það ekki. Við erum ekki búin að afgreiða fjárlögin og það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er að gera með þessu (Gripið fram í.) er að taka (Forseti hringir.) fjárveitingavaldið frá þinginu og setja það í sinn vasa. Það getum við ekki sætt okkur við og gerum ekki.