150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:17]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að setja á dagskrá Alþingis sérstaka umræðu um jöfnun dreifikostnaðar á raforku. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á. Ég mun leitast við að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður hefur lagt fram. Varðandi stöðuna á vinnu ráðuneytisins með Orkustofnun er því til að svara að í raun hafa nokkrar hugmyndir verið til skoðunar og eru til skoðunar, í fyrsta lagi að afnema skilin milli dreifbýlisgjaldskrár og þéttbýlisgjaldskrár og sameina þær. Ég hef áður komið inn á þetta. Slík aðgerð felur í sér umtalsverða kerfisbreytingu og hefur sína kosti og galla. Gallarnir felast m.a. í því að hvatar dreifiveitna til hagræðingar og hóflegra fjárfestinga geta minnkað, gagnsæi minnkar og koma þyrfti upp nýju millifærslukerfi. Sameinuð gjaldskrá myndi þýða hóflega hækkun á gjaldskrám í þéttbýli en umtalsverða lækkun í dreifbýli. Kostirnir væru einkum þeir að þörf fyrir sérstaka jöfnun myndi hverfa og varanlegt jafnræði næðist í gjaldtöku óháð búsetu.

Önnur leið að sama marki er að hækka jöfnunargjaldið. Það myndi að sama skapi þýða hóflega hækkun á gjaldskrám í þéttbýli en umtalsverða lækkun í dreifbýli. Til að ná því sem næst fullri jöfnun, þ.e. að dreifbýli verði á pari við dýrasta þéttbýlið, þarf að tvöfalda núgildandi jöfnunargjald sem myndi skila þeim milljarði eða þar um bil sem upp á vantar. Þessar tvær leiðir eiga það sammerkt að dreifikostnaður raforku mun hækka lítillega í þéttbýli en lækka umtalsvert í dreifbýli og við því er að búast að notendur í þéttbýli, sérstaklega þeir sem nota töluvert magn, muni taka þeirri hækkun illa. Við höfum gert breytingar á umhverfinu þannig að til að mynda gróðurhús í dreifbýli hafa getað skilgreint sig eins og þau séu í þéttbýli þannig að þetta myndi t.d. hafa áhrif á þau sem ég tel mjög ólíklegt til mikilla vinsælda.

Þriðja leiðin sem komið hefur til skoðunar er að sá milljarður sem upp á vantar verði að öllu leyti eða hluta fjármagnaður úr sameiginlegum sjóðum landsmanna á fjárlögum. Þannig var fyrirkomulagið í upphafi, frá árinu 2004, en því var síðan breytt þegar jöfnunargjaldið var tekið upp 2013. Ein möguleg útfærsla á þessari leið væri að það sem upp á vantar yrði tekið af arðgreiðslum orkufyrirtækja í ríkiseigu en bent hefur verið á að virkjanir Landsvirkjunar eru utan þéttbýlis og því að sumra mati sanngirnismál að hluti af arðseminni skili sér til baka til dreifbýlisins með þessum hætti.

Þá hafa sömuleiðis verið til skoðunar hugmyndir um að nýta fjármuni og arðgreiðslur frá Rarik og Orkubúi Vestfjarða tímabundið til að fjármagna hluta af því sem vantar upp á fulla jöfnun. Því tengt má nefna fyrirhugaða sölu Rariks og Orkubúsins á hlutum sínum í Landsneti til ríkisins sem nú eru í skoðun og undirbúningi. Hluta af þeim sölutekjum mætti nýta sem framlag í að jafna dreifikostnað innan þessarar dreifiveitna. Vinna við að greina þessa möguleika, þeir eru margir og þeir eru ólíkir og það eru ólíkir kostir og gallar með hverjum þeirra, er ágætlega á veg komin og ég vænti þess að frekari tíðinda sé að vænta á næstu vikum.

Varðandi aðra spurningu hv. þingmanns, um sameiningu dreifiveitna, hefur hún vissulega verið til skoðunar í samhengi við hugmyndina um sameiginlega gjaldskrá. Í dag eru sex dreifiveitur í landinu og tvær þeirra, Rarik og Orkubú Vestfjarða, eru bæði með þéttbýlis- og dreifbýlisgjaldskrá. Aðrar eru bara með eina. Líklegt er að sameining Rariks og Orkubúsins gæti haft í för með sér ákveðna hagræðingu sem gæti leitt til lækkunar á dreifikostnað innan þessara veitna. Það er nokkuð sem vissulega er ástæða til að skoða betur en rétt að árétta að stefnan hefur ekki verið sett á slíka sameiningu og engar ákvarðanir verið teknar þar að lútandi.

Í þriðja lagi varðandi tekjumörkin er það svo að Orkustofnun setur dreifiveitum og Landsneti tekjumörk sem gjaldskrár þeirra þurfa að vera innan og tekjumörkin hafa þannig vissulega áhrif en stjórnvöld hafa ekki bein áhrif á útreikninga þeirra og því eru þau ekki verkfæri í þeim skilningi að stjórnvöld geti beitt þeim til þess að jafna dreifikostnað.

Í fjórða lagi varðandi ávinninginn fyrir atvinnustarfsemi lít ég svo á að dreifikostnaður raforku geti haft mikla þýðingu fyrir fjölbreytta atvinnusköpun á landsvísu. Í dag er of mikill munur á orkukostnaði eftir búsetu. Hann hefur farið vaxandi og dæmin sýna að sá munur stendur nýrri atvinnustarfsemi í dreifbýli fyrir þrifum. Ég hef áður komið inn á það að ég tel þetta einn alvarlegasta ágalla á því regluverki og fyrirkomulagi sem við búum við í dag á sviði raforkumála. Það er forgangsverkefni hjá mér að finna leiðir til úrbóta á því. Við munum því standa við það sem kemur fram í fimm ára fjármálaáætlun, að hlutfall jöfnunar á dreifikostnaði raforku muni aukast á næstu árum með hagsmuni atvinnustarfsemi í dreifbýli og byggðaþróun í huga.

Það er þó þannig að þegar við förum að skoða leiðir eru þær fleiri en ein og fleiri en tvær og þær hafa mismunandi kosti og galla í för með sér. Vinnan er í fullum gangi og ég vona að hún gangi hratt og vel fyrir sig og að við fáum niðurstöður úr þessum greiningum sem allra fyrst og getum þá tekið ákvörðun um framhaldið en markmiðið er alveg kristaltært.