150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:25]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. frummælanda, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, fyrir að vekja athygli á þessu afar mikilvæga máli. Það er mikilvægt ef við viljum halda byggð í landinu að það sé jafnræði fyrir íbúa landsins, sama hvar fólk velur að búa. Eitt af því sem þar skiptir lykilmáli er jöfnun dreifikostnaðar raforku en það snertir hvort tveggja, heimilin og atvinnulífið. Staðan í dag er í raun algjörlega óásættanleg og mikill ójöfnuður í kerfinu. Það kemur til að mynda skýrt fram í skýrslu starfshóps um raforkuflutning í dreifbýli en dreifi- og flutningskostnaður á dýrustu þéttbýlisgjaldskrá hefur hækkað um 44,5% en í dreifbýli hefur hann hækkað um 102,8% hjá Rarik og um 117,3% hjá Orkubúi Vestfjarða. Þetta hefur sérstaklega mikil áhrif á þeim svæðum þar sem kynda þarf húsnæði með raforku, svo sem á Austfjörðum og Vestfjörðum. Vissulega voru tekin skref í rétta átt þegar niðurgreiðslan var aukin vegna dreifingar og flutnings raforku vegna húshitunar en það þarf að gera mun betur ef við viljum að íbúar landsins sitji allir við sama borð. Fyrirtæki í dreifbýli búa sömuleiðis við hærri flutningskostnað raforku en samkeppnisaðilar þeirra í þéttbýli.

Herra forseti. Staðreyndin er að ef það væri raunverulegur vilji hjá ríkisstjórninni til að efla byggð og atvinnulíf utan höfuðborgarsvæðisins hefði verið hægur leikur hjá henni að breyta þessu fyrir löngu. Það er ekki vonda Evrópusambandið sem ákveður að þetta eigi að vera svona heldur er það í hendi ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Við sem förum með fjárveitingavaldið ráðum því hversu mikið við greiðum niður flutningskostnað á rafmagni og þar eigum við svo sannarlega að gera betur og gera fólki það a.m.k. ekki erfiðara að búa þar sem það vill búa.