150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir þessa umræðu. Ég var svo heppin að fá tækifæri til að taka þátt í vinnu starfshóps ráðherra um úrbætur á raforkuflutningskerfi með áherslu á þrífösun. Ein af niðurstöðum hópsins var að það væri mikilvægt að flýta framkvæmdum við uppbyggingu þriggja fasa dreifikerfisins. Hvað gjaldskrárhlið dreifiveitukerfisins varðar þá dregur því miður, eins og við þekkjum, stöðugt í sundur milli dreifbýlis og þéttbýlis og núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þann mun. Við Íslendingar stærum okkur mikið af okkar grænu og ódýru raforku en það er engu að síður svo að gæðunum er misskipt milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Í starfshópnum var rætt um hugmyndir varðandi sameinaðar gjaldskrár raforku og sameiningu veitna í dreifbýli. Ég tel að það sé lykilatriði í þessari umræðu, enda er jafnt aðgengi að raforku afar mikilvægt svo tryggja megi fjölbreytta byggð víðs vegar um landið. Það er nefnilega ekki svo, af því að það eru að koma jól, að allir geti endilega farið í sturtu á aðfangadag þar sem tankurinn er kannski ekki ýkja stór og kynt er með rafmagni.

Það eru hin ýmsu fyrirtæki með eina gjaldskrá fyrir landið en því fylgir þó augljóslega mikill og aukinn kostnaður að ferja vöru, hvort sem um er að ræða orku eða matvæli, um land allt. Það má líka halda því til haga að þessi ójöfnuður er afar kostnaðarsamur. Þannig fóru á síðasta ári 2,3 milljarðar kr. í niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, stofnstyrki til nýrra hitaveitna og orkusparnaðaraðgerðir. Til að jafna húshitunarkostnað að fullu þyrfti að auka framlögin um tæpar 800 milljónir þannig að kostnaður við rafhitun íbúðarhúsnæðis væri sambærilegur við meðalkostnað í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.

Ráðherra kom inn á arðgreiðslurnar. Ég tel að það sé leið sem hægt sé að nota tímabundið. Það er vel hægt að jafna muninn á þeim

kostnaði sem leggst á íbúa í dreifbýli og þéttbýli ef til þess er pólitískur vilji. Ég fagna því að frumvarp ráðherra um breytingu á lögum um jöfnun dreifikostnaðar raforku sé á þingmálaskrá og eins og hæstv. ráðherra benti á kemur það vonandi fram sem fyrst.