150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það er brýnt að við ræðum það reglulega. Þetta hefur sem betur fer vakið athygli þingheims nokkrum sinnum. Síðan má auðvitað velta fyrir sér hversu mikið er gert en ég vil engu að síður taka undir að ég held að ráðherra sé að reyna hvað hún getur í nákvæmlega þessum málum. Ég vil hins vegar samt velta því upp fyrir okkur hér og þeirri spurningu hvort forgangurinn, þegar kemur að raforku á landsbyggðinni, ætti ekki fyrst og fremst að vera á raforkuöryggi og dreifingu. Ég held að í stóru myndinni ætti að vera forgangsmál okkar að það sé öryggi fyrir atvinnurekendur, lítil, meðalstór og stærri fyrirtæki, að geta stundað atvinnurekstur eða einfaldlega fyrir fólkið í landinu að geta sinnt heimilishaldi, eldað góðan mat o.s.frv.

Við þekkjum það að bæði Eyjafjarðarsvæðið og Vestfjarðasvæðið, sem ég vil sérstaklega draga fram, eru því miður ekki svo heppin að lifa við fullkomlega sama raforkuöryggið og þéttbýlið, þ.e. við á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Það hefur miklu meiri áhrif á byggðirnar en kostnaðurinn að mínu mati við raforkuna því að þetta raforkuöryggisleysi hefur miklu meiri áhrif á daglegt líf fólksins á landsbyggðinni.

Ég veit að hæstv. ráðherra er með puttann á púlsinum í þessu efni. Þrátt fyrir að umhverfið sé kannski snúið hlýtur forgangsmálið í raforkumálum að vera það að fyrirtæki geti blómstrað og að við getum miðlað orkunni þannig að hún sé nægileg fyrir allt landið, ekki bara hluta þess. Þess vegna verðum við að setja raforkuöryggið og þar með talið dreifikerfið í algjöran forgang. Við þurfum að tryggja að þessi kerfi séu þannig (Forseti hringir.) úr garði gerð að íbúar landsins sem og fyrirtæki landsins, hvar sem þau eru staðsett, geti gengið að öruggu og virku rafmagni.