150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. málshefjanda fyrir frumkvæði hennar að þessari mikilvægu umræðu. Mig langar samt í upphafi til að rifja upp það ótrúlega óréttlæti sem varð við kerfisbreytinguna upp úr árinu 2003 þegar ákveðið var að hafa tvö tekjumörk í landinu fyrir dreifbýli og þéttbýli á dreifisvæði Rariks. Ég vil bara draga það fram að áður hafði þéttbýlið verið endurnýjað og byggt upp og dreifbýlið tekið þátt í því. Síðan komu þessi skil í löggjöfina og við vorum látin sitja uppi með það í dreifbýlinu að bera ein uppbygginguna þar. Það er mikilvægt að við höfum það í huga.

Það getur ekki verið neinni þjóð til sóma sem er á hraðri leið í orkuskiptum að taka ekki þennan þátt fastari tökum en við gerum í dag og þess vegna fagna ég þeim orðum ráðherrans áðan um að við séum að leita leiða til þess og að við höfum raunverulega marga valkosti til að takast á við það. Ég þekki þá vinnu ágætlega. Það getur nefnilega ekki verið þannig í landi orkuskiptanna að við ætlum að hafa svona mismunun. Ef það tekst ekki bendi ég á þá orkugjafa sem við erum að reyna að minnka markvisst notkun okkar á, bensín og dísil, þar sem við höfum ákveðið jöfnunarkerfi fyrir alla landsmenn.

Virðulegur forseti. Það eru líka ákveðin teikn um að þörfin fyrir fjármagn til að jafna dreifikostnaðinn fari minnkandi vegna þess að við höfum náð áföngum í að byggja upp þessi kerfi og endurnýja þau í dreifbýlinu. Til að það raungerist þarf eigandinn sjálfur að hafa miklu sterkara taumhald og skýra stefnumótun fyrir þau fyrirtæki sem hann á. Hið opinbera á í raun öll lykilfyrirtækin á þessum markaði og þegar við höfum í 15 ár verið með þessa löggjöf er fullkomlega tímabært að fara yfir sviðið og þar með þau félög og fyrirtæki á þessu sviði sem við eigum og rekum og gerum upp við okkur hvaða tilgangi þau þjóna og hvernig við getum (Forseti hringir.) nýtt þá fjármuni betur sem í þeim eru bundnir til að ná því sjálfsagða markmiði sem við tölum hér um. Ráðherra tók það mjög vel fram í ræðu sinni og ég tek heils hugar undir það og styð.