150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og frumkvæði hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur fyrir að vekja máls á þessu vegna þess að þetta er afar mikilvægt. Það er mikilvægt að landsmenn sitji allir við sama borð þegar kemur að þeim lífsgæðum sem felast í því að búa við ódýrt raforkuverð. Það er einnig tímabært að íbúar hinna dreifðu byggða sitji við sama borð og íbúar í þéttbýli hvað varðar raforkuverð og það er mjög sérstakt og í raun óverjandi að þeir sem búa næst uppsprettu raforkunnar, eins og t.d. á Suðurlandi, nærri virkjunum og undir raflínum sem flytja orkuna til höfuðborgarsvæðisins á suðvesturhorninu, skuli greiða hærra verð fyrir orkuna en þeir sem fjær búa.

Mál þetta tengist einnig orkupökkum Evrópusambandsins vegna þess að orkupakkar eitt og tvö gerðu það að verkum að það þurfti að skipta upp dreifingu og sölu á raforku og það hafði í för með sér hækkun í einu vetfangi, heil 10% og síðan komu fleiri hækkanir. Það er ekki hægt að andmæla því.

Fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku í þéttbýli og dreifbýli hafa tvær mismunandi gjaldskrár, eins og komið hefur fram, aðra fyrir dreifingu raforku í þéttbýli og hina fyrir dreifingu raforku í dreifbýli. Þrátt fyrir niðurgreiðslu frá ríkinu, svonefnt dreifbýlisframlag, er raforkuverð í dreifbýli enn þá hærra en raforkuverð í þéttbýli. Þessu verður að breyta, herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra en það kom fram í máli hennar að hún mun hafa þetta sem forgangsverkefni og ég veit að hún hefur mikinn áhuga (Forseti hringir.) á að bæta stöðuna í þessu máli sem er afar brýnt. Einnig vil ég nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að setja meiri fjármuni og meiri kraft í að leita að heitu vatni á köldum svæðum, (Forseti hringir.) það hefur gefið góða raun eins og t.d. í Nesjum í Höfn í Hornafirði.